Skip to main content
27. júní 2017

Framkvæmdir hefjast við nýja stúdentagarða

Framkvæmdir hófust við nýja stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta (FS) þegar tekin var fyrsta skóflustunga að görðunum mánudaginn 26. júní. 

Garðarnir verða staðsettir á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands við Sæmundargötu. Þar munu rísa um 14.700 fermetra hús á fimm hæðum með um 220 leigueiningum, herbergjum með sér baðherbergi og sameiginlegri aðstöðu, einstaklingsíbúðum og paríbúðum. Stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið í lok árs 2019.

Staðsetning garðanna er einstaklega hentug fyrir stúdenta við Háskóla Íslands sem vilja búa í nágrenni við skólann. Bygging garðanna mun jafnframt styrkja Vísindagarðasvæðið en þar er unnið að uppbyggingu fyrirtækja og stofnana á sviði rannsókna, vísinda og þekkingar sem hafa hag að staðsetningu á háskólasvæðinu og leggja því lið. Með markvissri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, vinnustaða, háskóla og almennri þjónustu er þar sóst eftir sjálfbæru borgarsamfélagi.

 Að jafnaði eru um eitt þúsund manns á biðlista eftir dvöl á görðum og þrátt fyrir töluverða uppbyggingu hafa biðlistar lengst síðustu ár. Leigueiningar á stúdentagörðum eru í dag um 1.200 og hýsa um tvö þúsund manns manns, þ.e. stúdenta við Háskóla Íslands og fjölskyldur þeirra. 

Stefna FS er að halda uppbyggingu Stúdentagarða áfram þar til allir stúdentar sem kjósa að búa á görðum eigi þess kost. Markmið FS er að byggja um 600 leigueiningar á næstu fimm árum.

Nýju stúdentagarðarnir verða fjármagnaðir að 90% hluta með lánum frá Íbúðalánasjóði en það sem á vantar leggur FS til.  
 

Ragna Sigurðardóttir, formaður SHÍ, Guðrún Björsdóttir, framkvæmdastjóri FS, Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, taka skóflustunguna.