Skip to main content
16. febrúar 2017

Fræðst um jökla og ís í Bláfjöllum

""

Jöklar, snjór og ís verða þemað í ferð Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna sem farin verður í Bláfjöll föstudaginn 17. febrúar kl. 16. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir hjá Ferðafélagi Íslands og Guðfinna Aðalgeirsdóttir,  dósent í jöklafræði við Háskóla Íslands. Ferðin er hugsuð fyrir alla fjölskylduna og er ætlunin að búa til snjóhús, renna sér á snjóþotum og fara í ljósagöngu í myrkrinu á milli þess sem fræðst er hopun jökla, snjókristalla, snjóflóð og fleira.

Guðfinna er í hópi fremstu jöklafræðinga landsins og gestir koma því ekki að tómum kofanum þegar rætt er við hana um hegðun íss og jökla. Hún hefur unnið að rannsóknum á jöklum allt frá Suðurskautslandinu til Alaska en beinir nú sjónum sínum að íslenskum jöklum sem hopa hratt samkvæmt rannsóknum. Það hefur ýmsar afleiðingar fyrir landið. „Útlit landsins breytist heilmikið og árstíðabreytingar verða í rennsli jökuláa í kjölfar bráðnunar jöklanna, þ.e. leysing hefst fyrr á vorin og endar seinna á haustin. Sumarafrennsli mun fyrst aukast en síðan minnka þegar jöklarnir minnka á næstu áratugum. Jöklarnir eru þungir og landið undir þeim hefur sigið undan farginu. Þegar þeir bráðna minnkar fargið og landið rís þá aftur. Þetta landris hefur verið að aukast á síðustu árum,“ segir Guðfinna. 

Leysing mikil á lægstu svæðum jökla í vetur

Veturinn hefur verið afar hlýr hér á landi og því vakna spurningar um það hvort vísindamenn hafi merkt miklar breytingar á jöklunum í vetur. „Við höfum ekki beinar mælingar af afkomu jöklanna núna í vetur en vísbendingar eru um að leysing hafi verið mikil á lægstu svæðunum. Þetta má m.a. sjá á Sólheimajökli. Þar er vír sem við höfum borað niður um 10 metra í ísinn á vorin og hann hefur verið að koma upp úr jöklinum um það bil í mars árið eftir. Hann var hins vegar kominn upp úr í nóvember í vetur svo það hefur leyst mikið í öllum stormunum sem komu í haust. Vegna mikillar úrkomu gæti hins vegar verið að afkoma jökla yrði ekki svo slæm í ár hærra uppi því í yfir um það bil 1000 metrum fellur úrkoman sem snjór sem bætist þá við jöklana á safnsvæði þeirra. Það verður ekki fyrr en  í apríl sem vetrarúrkoman verður mæld svo á þessari stundu getum við ekki sagt nákvæmlega til um það hvernig afkoma jöklanna verður í ár,“ segir Guðfinna.

Bláfjöll hafa verið eitt vinsælasta skíðasvæði landsins í áratugi enda aðstæður til skíðaiðkunar góðar þar. Þar er ekki síður gaman að ganga um og kynna sér jarð- og jöklasöguna. Líkt og með aðra hluta Íslands þá þakti ísaldarjökull Bláfjöll fyrir tugþúsundum ára. „Ísaldarjökullinn var stærstur fyrir um 23.000 árum og hann hopaði inn fyrir núverandi strönd Íslands fyrir um 14.800 árum. Það eru ekki til upplýsingar um hvenær hann hvarf af Bláfjallasvæðinu  en hann var örugglega farinn fyrir um 10.000 árum,“ segir Guðfinna um svæðið sem gengið verður um á föstudag.

Ferðin í Bláfjöll hefst við húsakynni Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 kl. 16 á föstudag. Þaðan verður ekið á einkabílum upp í Bláfjöll. Reiknað er með að ferðin taki um 3-4 klukkustundir en gangan er ekki erfið og er hún því tilvalin fyrir alla fjölskylduna. Guðfinna hvetur þátttakendur til að klæða sig eftir veðri og jafnframt að taka með sér skóflur, snjóþotur og höfuðljós sem hægt verður að nýta í ljósagöngu í myrkrinu. 

Göngu- og fræðsluferðin í Bláfjöllum er liður í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ sem staðið hefur frá aldarafmælisári skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum ferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. 

Guðfinna Aðalgeirsdóttir