Skip to main content
1. mars 2017

Föstudagskvöld með Sævari Helga og stjörnunum

""

Háskóli Íslands, Bóksala stúdenta og Stjörnufræðivefurinn blása til stjörnuskoðunar undir leiðsögn Sævars Helga Bragasonar stjörnufræðimiðlara fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 3. mars milli kl. 20 og 21.30. Sjónum gesta og sjónaukum á staðnum verður m.a. beint að vaxandi mána, vetrarbrautinni og vonandi norðurljósum. Götulýsing verður slökkt á háskólasvæðinu, í vesturbænum og miðbænum í 45 mínútur til þess að hægt verði að njóta himingeimsins sem best. 

Markmið viðburðarins er að hvetja fólk til þess að njóta náttúrunnar og himingeimsins nú þegar veður er stillt og veðurskilyrði til stjörnuskoðunar eru með besta móti. Sævar Helgi Bragason mun lýsa því sem fyrri augu ber á kvöldhimninum en hann er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir miðlun sína á undrum himingeimsins. Hann hefur t.d. kennt stjörnufræði við góðan orðstír í Háskóla unga fólksins og í Háskólalestinni undanfarin ár sem bæði eru verðlaunaverkefni ætluð ungu fólki á vegum Háskóla Íslands.  

Á viðburðinum á föstudag gefst jafnframt færi á að skoða tunglið og ýmsar stjörnur í gegnum sjónauka sem Sævar Helgi verður með. Hver veit nema norðurljósin taki líka léttan dans á himninum.

Safnast verður saman á túninu fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands kl. 20. Götulýsing verður slökkt milli kl. 20.30 og 21.15 í vesturbæ og miðbæ á svæðum sem merkt eru 10, 11 og 20 á meðfylgjandi korti en það er gert í góðri samvinnu við Reykjavíkurborg og Orku náttúrunnar. Með þessu fyrirkomulagi verður hægt að njóta himingeimsins og lýsingar Sævars Helga á honum á sem bestan hátt. 

Stjörnuskoðunin á föstudag er ætluð öllum aldurshópum og eru gestir hvattir nýta almenningssamgöngur til að ferðast á viðburðinn ef kostur er. Við Háskóla Íslands í Vatnsmýri stoppa strætisvagnar nr. 14, 1, 6, 3 og 12 og vagnar nr. 11 og 15 stoppa einnig nálægt. Spáð er björtu en köldu veðri og því er vissara að klæða sig vel áður en haldið er af stað til móts við stjörnurnar.

Glæný kort af stjörnuhimninum yfir Íslandi, sem unnin eru í samvinnu Sævars Helga, Bóksölu stúdenta og Háskóla Íslands, verða til sölu á staðnum og sömuleiðis bókin Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna sem Sævar Helgi gaf út fyrir jól.

Segja má að viðburðurinn á föstudag sé frábær upphitun fyrir Háskóladaginn í Háskóla Íslands sem verður á laugardag en þá mun Sævar Helgi bjóða almenningi upp á ferðir til stjarnanna í hinu landsfræga Stjörnutjaldi.  Á Háskóladeginum verður starfsemi skólans jafnframt kynnt, þar á meðal um 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi. 

Sævar Helgi Bragason
Götukort í Reykjavík