Skip to main content
1. janúar 2016

Forvitnin drífur mig áfram

""

„Það er forvitnin sem drífur mig áfram,“ segir Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, en hann hlaut í vikunni heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright fyrir árið 2015.

Þorsteinn er einn afkastamesti vísindamaður landsins. Eftir hann liggja um tíu stórmerkilegar uppfinningar á sviði lyfja- og læknisfræði en þeim til verndar hafa tugir einkaleyfa verð skráðir í fjölmörgum þjóðlöndum. Þorsteinn er í hópi þeirra sem eiga flest skráð einkaleyfi við Háskóla Íslands auk þess sem hann hefur komið að stofnun fjölmargra sprotafyrirtækja sem byggja starf sitt alfarið á uppfinningum. Þorsteinn hefur enn fremur verið einstaklega duglegur að afla erlendra styrkja til að gera rannsóknir mögulegar á ýmsum sviðum lyfja- og læknisfræði.  

Fyrir skömmu fór Þorsteinn á sérstakan lista matsfyrirtækisins Thomson Reuters yfir áhrifamestu vísindamenn samtímans ásamt nokkrum öðrum Íslendingum. Á listanum eru rúmlega 3000 vísindamenn sem að mati Thomson Reuters hafa mest áhrif á sínu vísindasviði í heiminum. Listinn nær til allra greina vísinda og fræða að hugvísindum frátöldum. Það er auðvitað einstakt afrek að komast í hóp þeirra allra bestu en leiðin þangað er hvorki bein né greið. 

„Ég hafði ekki áhuga á að stunda hefðbundna vinnu frá 9 til 5 og hélt því áfram námi eftir að hafa lokið kandídatsprófi í lyfjafræði,“ segir Þorsteinn. „Eftir að doktorsnámi lauk hóf ég störf sem lektor hér í Háskóla Íslands. Kaupið var lágt og aðstæður til rannsókna voru engar. Ég ákvað þó að reyna þetta í a.m.k. fimm ár og sjá svo til. Þetta var fyrir 35 árum,“ segir Þorsteinn og hlær. 

Fljótlega eftir doktorsvörnina varð Þorsteinn gistikennari við Flórídaháskóla og dvaldi þar árvisst í allt að sex mánuði við rannsóknir. „Á einum áratug tókst mér svo að byggja upp litla rannsóknaaðstöðu við Lyfjafræðideildina okkar hér, aðstæður til rannsókna eru nú orðnar þokkalegar þótt þær séu vart góðar.“

Verkefni Þorsteins Loftssonar hafa verið afar fjölbreytt og mörg hver vakið gríðarlega athygli.  Uppfinning sem snýst um þróun nýrra augndropa sem útrýmir sprautunálum hefur t.d. vakið athygli um allan heim. Svokallaðar nanóagnir úr sýklódextrínum hafa verið þróaðar en þær ferja lyf í augndropunum frá yfirborði augans til bakhluta þess.  Samhliða því hefur verið unnt að hætta að sprauta lyfinu í augað. Þetta átti ekki að vera fræðilega mögulegt en Þorsteinn hefur nú sannað það gagnstæða í félagi við Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum. „Við Einar höfum átt mjög frjósamt rannsóknasamstarf í yfir 20 ár og stofnuðum fyrir nokkrum árum sprotafyrirtækið Oculis um þessar augnlyfjarannsóknir okkar. Oculis er eitt af sprotafyrirtækjum Háskóla Íslands.“

Þorsteinn hefur einnig sótt í hafið, gnægtarkistu okkar Íslendinga, ásamt Einari Stefánssyni, en þeir hafa leitað þar að lausnum við ýmsum sjúkdómum. Lífvirk fituefni hafa t.d. verið unnin úr sjávarafurðum og er afraksturinn m.a. lyf til meðferðar við meltingarsjúkdómum. Lyfið hefur nú þegar farið í gegnum fyrstu fasa klínískra rannsókna. „Verkefnið gengur vel og árið 2009 stofnuðum við sprotafyrirtækið Lipid Pharmaceuticals í kringum þetta verkefni ásamt Lýsi hf., Háskóla Íslands og Landspítalanum." 

Þorsteinn hefur haldið áfram rannsóknum á nanóögnum sem myndaðar eru með samruna svokallaðra sýklódextrína. Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem má t.d. nota við að auka vatnsleysanleika fituleysanlegra lyfja. Nú vinnur Þorsteinn að stóru verkefni á þessu sviði í samvinnu við Háskólann í Leuven í Belgíu, VU-háskólann í Hollandi og lyfjafyrirtækið Janssen Pharmaceutica í Belgíu. Verkefnið hlaut á fjórðu milljón evra í styrk til þriggja ára úr belgískum rannsóknasjóði og er hlutur Háskóla Íslands í því samstarfi um 700 þúsund evrur.

Annað verkefni tengt sýklódextrínum er virkjun sýklalyfja með fléttun við sýklódextrín. Verkefnið er hluti af Marie Curie neti sem hlaut Evrópustyrk til fjögurra ára.

Að sögn Þorsteins hefur uppbygging lyfjafræðikennslu og lyfjafræðirannsókna við háskólann leitt til uppbyggingar fyrirtækja sem afla þjóðinni mikilla tekna. „Þetta eru ekki aðeins stærri fyrirtæki eins og Actavis, Alvogen og Invent Farma heldur einnig ýmis smærri fyrirtæki og sprotafyrirtæki. Samtals skila þessi fyrirtæki þjóðarbúinu sennilega milljörðum króna í erlendum tekjum á hverju ári.“

Þorsteinn segir að góður háskóli eins og Háskóli Íslands leiði af sér hátæknifyrirtæki sem aftur leiði af sér fjölbreytilegt atvinnulíf og þjóðarvelmegun. „Hver króna sem samfélagið lætur frá sér í kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands skilar sér margfalt aftur til þjóðfélagsins.“

Þorsteinn Loftsson
Þorsteinn Loftsson