Skip to main content
16. nóvember 2015

Flutti erindi á þingi bandarískra hjartalækna

Inga Hlíf Melvinsdóttir, sem brautskráðist með kandídatspróf í læknifræði frá Háskóla Íslands í vor, flutti erindi um rannsóknir sínar á þingi Samtaka bandarískra hjartalækna (American Heart) í Orlando í Flórída í síðustu viku. Þingið er eitt stærsta læknaþing í heimi en það sækja um 20 þúsund manns. 

Á þinginu flutti Inga Hlíf, sem nú er kandídat á Landspítala, fyrirlestur um faraldsfræði ósæðarflysjunar í brjóstholi á Íslandi. Rannsóknin er einstök þar sem hún tekur til heillar þjóðar og nær bæði til sjúklinga sem fóru í aðgerð og þeirra sem ekki náðu lifandi inn á sjúkrahús.

Um er að ræða rannsókn sem Inga hefur unnið að með fram læknanámi síðustu tvö árin og hefur aðalleiðbeinandi verið Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir og aðstoðarleiðbeinandi Tómas Guðbjartsson prófessor. Óvenjulegt er að læknanemar og kandídatar fái tækifæri til að kynna rannsóknir sínar í fyrirlestri á American Heart.

Inga Hlíf Melvinsdóttir og Martin Ingi Sigurðsson
Inga Hlíf Melvinsdóttir og Martin Ingi Sigurðsson