Skip to main content
16. janúar 2017

Fjórir öndvegisstyrkir til Háskóla Íslands

Vísindamenn við Háskóla Íslands hlutu fjóra öndvegisstyrki úr Rannsóknasjóði Rannís fyrir árið 2017, eða alla þá sem úthlutað var að þessu sinni. Alls komu 50 af 65 rannsóknastyrkjum, sem úthlutað var úr sjóðnum, í hlut starfsmanna og doktorsnema við Háskóla Íslands.

Rannsóknasjóði Rannís bárust samtals 302 um sóknir að þessu sinni og voru 65 þeirra styrktar sem fyrr segir eða 22% umsókna. Af þessum ríflega 300 umsóknum voru 20 um öndvegisstyrki sem eru hæstu styrkirnir sem veittir eru úr sjóðnum. 

Fjögur verkefni hlutu öndvegisstyrk að þessu sinni og tengjast þau öll Háskóla Íslands. Hæsta styrkinn, rúmlega 51 milljón króna hlaut verkefnið „Fötlun fyrir tíma fötlunar“ en verkefnisstjóri þess er Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræði við Félags- og mannvísindadeild.

Næsthæsta öndvegisstyrkinn hlaut verkefnið „Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum“ sem lýtur forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum við Háskóla Íslands. Styrkupphæðin nemur 46 milljónum króna en Sigurður Yngvi og samstarfsfólk hafa þegar aflað nærri hálfs milljarðs króna úr erlendum samkeppnissjóðum til verkefnisins. 

Steven Campana, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild,  stýrir verkefninu „Langtímavaxtarsería kvarna og samloka í tengslum við viðgang þorskstofna og loftslag í NA-Atlantshafi“ sem hlýtur rúmlega 45 milljóna króna styrk  og þá fær verkefnið „Ný eðlisfræði hulduefnis: Áhrif á myndun, þróun og gerð vetrarbrauta“ sem lýtur stjórn Jesús Zavala Francos, dósents við Miðstöð um stjarneðlisfræði og heimsmyndafræði við Háskóla Íslands, 32,5 milljóna króna styrk.

Rannís úthlutaði enn fremur 33 verkefnisstyrkjum á fjölbreyttum fræðasviðum og komu 23 þeirra í hlut starfsmanna Háskóla Íslands og tengdra stofnana. Þá bárust Rannsóknasjóði Rannís 50 umsóknir um rannsóknastöðustyrki (post-doc) og voru 14 þeirra styrktar, þar af 11 við Háskóla Íslands. Enn fremur fékk Rannsóknasjóður 59 umsóknir um doktorsnemastyrki og voru þeirra 14 styrktar. Tólf doktorsnemanna sem hljóta styrk eru við Háskóla Íslands. 

Nánari upplýsingar um styrkhafa og styrkt verkefni má finna á vef Rannís.

Háskóli Íslands óskar styrkhöfum innilega til hamingju með styrkina.

Frá vinstri Steven Campana, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, Sigurður Yngvi Kristinsson og Jesús Zavala Franco.
Frá vinstri Steven Campana, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, Sigurður Yngvi Kristinsson og Jesús Zavala Franco.