Skip to main content
4. nóvember 2015

Fjórir nýir prófessorar við Hugvísindasvið

""

Fjórir fræðimenn hafa fengið framgang í starf prófessors við Hugvísindasvið Háskóla Íslands á árinu. Efnt var til samkomu þeim til heiðurs í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins síðastliðinn föstudag þar sem prófessorarnir kynntu sérsvið sín og viðfangsefni.

Prófessorarnir fjórir eru:

Benedikt Hjartarson er prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Íslensku- og menningardeild. Benedikt lauk B.A.-prófi (1995) og meistaraprófi (1997) í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, doktorsprófi frá hugvísindasviði háskólans í Groningen árið 2012. Hann var sendilektor í íslensku við Norrænudeild Ludwig Maximilians háskólans í Munchen 2002 til 2004. Hann hefur starfað við Íslensku- og menningardeild síðan 2004, sem stundakennari 2004-2009, aðjunkt 2009-2013, lektor 2013-2014 og sem dósent 2014-2015. (Kynning á Youtube)

Jóhannes Gísli Jónsson er prófessor í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild. Hann lauk B.A.-prófi í íslensku með latínu sem aukagrein frá Háskóla Íslands 1986, cand.mag.-prófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands 1989 og doktorsprófi í almennum málvísindum frá University of Massachusetts í Amherst 1996. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands frá 1996, fyrst sem stundakennari til 2001, aðjunkt til 2013 og lektor til 1. júlí 1015. (Kynning á Youtube)

Rúnar Már Þorsteinsson er prófessor í nýjatestamentisfræðum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Rúnar lauk cand. theol. prófi frá HÍ árið 1998 og doktorsprófi í nýjatestamentisfræðum frá Lundarháskóla í Svíþjóð 2003. Hann var settur lektor í nýjatestamentisfræðum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Lundarháskóla frá vori 2007 til vors 2008 og gegndi rannsóknarstöðum í Lundarháskóla frá 2004 til 2008 og við Kaupmannahafnarháskóla 2009 til 2011. Rúnar var ráðinn lektor við Háskóla Íslands 1. júlí 2013. (Kynning á Youtube)

Sigurður Gylfi Magnússon er prófessor í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild með rannsóknaraðstöðu í Þjóðminjasafni Íslands. Hann er jafnframt í forsvari fyrir Miðstöð einsögurannsókna sem er vistuð við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands (www.microhistory.org). Hann lauk B.A.-prófi frá Háskóla Íslands 1984 með sagnfræði sem aðalgrein og heimspeki sem aukagrein, M.A.-prófi frá Carnegie Mellon University í Pittsburgh í Bandaríkjunum árið 1987 og doktorsprófi (Ph.D.) frá sama skóla árið 1993. Hann var fyrsti formaður stjórnar ReykjavíkurAkademíunnar og hafði þar starfsaðstöðu sem sjálfstætt starfandi fræðimaður frá 1998 til 2010. Var í rannsóknastöðu Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn 2010 til 2013 og dósent við Háskóla Íslands frá 2014. (Kynning á Youtube)

Prófessorarnir Rúnar Már, Jóhannes Gísli, Sigurður Gylfi og Benedikt.