Skip to main content
28. febrúar 2015

Fjölmiðla- og boðskiptafræði í samvinnu við HA

Stjórnmálafræði- og Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri hyggjast frá og með næsta hausti bjóða upp á nýtt meistara- og diplómanám í fjölmiðla- og boðskiptafræðum. Meginmarkmið námsins er að auka skilning á flóknu, fjölbreyttu og síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi og eru miklar vonir bundnar við að samstarfið skili báðum skólum aukinni grósku í rannsóknum á þessum lykilþætti í okkar lýðræðislegu stjórnskipan.

Í skýrslu starfshóps sem undirbjó námið stóð m.a.: „Mikilvægi fjölmiðla í nútímasamfélögum fer sívaxandi. Í samræmi við það vex þörfin og áhuginn á fræðslu og rannsóknum á fjölmiðlum. Alþjóðlegt rannsóknastarf á þessu sviði hefur vaxið mjög en á Íslandi er brýnt að styrkja rannsóknir á stöðu og áhrifum fjölmiðla. Námið mun auka val nemenda og efla rannsóknir og rannsóknarsamstarf deildanna og skólanna langt umfram það sem þeir gætu hvor í sínu lagi.“

Nemendur beggja skóla sækja sameiginleg fræðileg námskeið (40 ECTS-einingar) sem boðin verða bæði í fjarnámi og staðnámi. Mikil áhersla er í náminu á þjálfun í rannsóknum og sækja nemendur aðferðafræðinámskeið (30 ECTS), hver í sínum skóla. Valnámskeið (24 ECTS)  og lokaritgerð (30 ECTS) eru einnig tekin í heimaskóla.

Í námsnefnd meistaranámsins sitja þau Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Ragnar Karlsson og Valgerður A. Jóhannsdóttir, aðjunktar við Háskóla Íslands. Þau Birgir, Ragnar og Valgerður hafa öll lagt stund á rannsóknir á íslenskum fjölmiðlum um árabil og fjallað um þá í ræðu og riti.

Nýtt meistara- og diplómanám í fjölmiðla- og boðskiptafræðum í samstarfi við Háskólann á Akureyri
Nýtt meistara- og diplómanám í fjölmiðla- og boðskiptafræðum í samstarfi við Háskólann á Akureyri