Skip to main content
4. febrúar 2016

Fjögur hljóta tilnefningu til verðlauna Hagþenkis

""

Fjórir fræðimenn sem starfa við Háskóla Íslands eða tengdar stofnanir eru tilnefndir til Viðurkenningar Hagþenkis 2015 fyrir fræðilegt efni.

Hagþenkir hefur í þrjá áratugi veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings og voru tilnefningar fyrir bækur og rit síðasta árs kynntar í Borgarbókasafninu þriðjudaginn 2. febrúar.

Í hópi tíu höfunda og verka sem tilnefnd eru að þessu sinni eru fjórir fræðimenn sem starfa við eða hafa starfað við Háskóla Íslands og tengdar stofnanir. Þetta eru þau Gunnar Þór Bjarnason, stundakennari við Hugvísindasvið, Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild, Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, og Þórunn Sigurðardóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður í íslenskum fræðum.

Þau eru tilnefnd fyrir eftirtalin verk:

Gunnar Þór Bjarnason fyrir bókina „Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918“ sem Mál og menning gaf út. „Frumlegt verk þar sem fléttað er saman í læsilegum texta frásögnum af ógnaratburðum úti í heimi og viðbrögðum Íslendinga við þeim,“ segir í umsögn Viðurkenningaráðs Hagþenkis. Þess má geta að Gunnar Þór er einnig tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir verkið.

Silja Bára Ómarsdóttir og samstarfskona hennar, Steinunn Rögnvaldsdóttir, eru tilnefndar fyrir bókina „Rof. Frásagnir kvenna af fóstureyðingum“ sem Háskólaútgáfan gefur út. „Í þessu tímabæra verki er vakin athygli á mikilvægu málefni. Ólíkar raddir kvenna fá að hljóma og dregnir eru fram sameiginlegir þræðir í sögum þeirra,“ segir í umsögn Viðurkenningaráðs Hagþenkis. Bókin var einnig tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna.

Soffía Auður Birgisdóttir hlýtur tilnefningu fyrir bókina „Ég skapa — þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar“ sem kom út hjá Opnu. „Metnaðarfullt og þarft verk um framlag þessa sérstæða og umdeilda höfundar til íslenskra bókmennta, skrifað á aðgengilegan og líflegan hátt,“ segir í umsögn Viðurkenningaráðs Hagþenkis um bókina.

Þórunn Sigurðardóttir er tilnefnd fyrir bókina „Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld“. Útgefandi er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samstarfi við Háskólaútgáfuna. „Með smitandi áhuga sínum og þekkingu kennir höfundur lesendum að skilja og meta löngu gleymdan kveðskap 17. aldar,“ segir í umsögn Viðurkenningaráðs Hagþenkis um bókina, en hún byggist á doktorsritgerð Þórunnar við Háskóla Íslands. Bókin var einnig tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna.

Viðurkenning Hagþenkis 2015 verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars og nema verðlaunin einni milljón króna. Viðurkenningaráð, skipað fimm félagsmönnum, stendur að valinu en það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega með verkefnastýru. 

Frekari upplýsingar um tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis er að finna á heimasíðu félagsins.

Höfundar verkanna tíu sem tilefnd eru til Viðurkenningar Hagþenkis.
Höfundar verkanna tíu sem tilefnd eru til Viðurkenningar Hagþenkis.