Skip to main content
19. september 2016

Fimm styrkir til rannsókna í jarð- og lífvísindum

Veittir hafa verið fimm styrkir úr Eggertssjóði til vísindamanna við Háskóla Íslands, þrír til rannsókna og tveir til tækjakaupa sem tengjast rannsóknum. Styrkirnir nema samtals fimm milljónum króna og voru voru afhentir við athöfn á Háskólatorgi 14. september.

Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á þeim sviðum.

Dr. Isabel Pilar Catalan Barrio, rannsóknasérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, hlaut styrk til rannsóknaverkefnisins „Sauðfjárbeit á viðkvæmu landi: áhrif grasbíta á túndruvistkerfi í kjölfar jarðvegseyðingar og loftslagsbreytinga“. Sauðfjárbeit hefur verið eitt helsta landnýtingarform svæða við Norður-Atlantshaf. Með stækkun sauðfjárstofna á Íslandi jókst umfang jarðvegseyðingar og hnignun vistkerfa sem m.a. hefur vakið upp spurningar um sjálfbæra sauðfjárbeit í ljósi annarra umhverfisbreytinga. Markmið verkefnisins er að rannsaka þátt sauðfjárbeitar í viðbrögðum túndruvistkerfa við jarðvegseyðingu og loftslagsbreytingum. Styrkurinn frá Eggertssjóði verður nýttur til að fjármagna uppsetningu veðurstöðva á tveimur rannsóknasvæðum á hálendi Íslands. Svæðin eru innan og utan gosbeltisins, með mismunandi gróðurþekju og því misviðkvæm fyrir jarðvegseyðingu. Með veðurstöðvunum má fylgjast náið með árstíðabundnum sveiflum í umhverfisþáttum svæðanna (hita, raka, vindhraða, vindátt, inngeislun) en slíkar upplýsingar eru mikilvægar til að greina og skilja ferli endurheimtar gróðurs og jarðvegs á beitilöndum.

Dr. Sævar Ingþórsson, nýdoktor á rannsóknastofu í stofnfrumufræðum við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, hlaut styrk til að þróa ræktunarlíkan til rannsókna á lungnasjúkdómum og varnareiginleikum lungnaþekju. Öndunarfærasjúkdómar draga árlega milljónir til dauða á heimsvísu. Öndunarfæraþekjan er undir miklu umhverfisálagi þar sem í innöndunarlofti er mikið af skaðsömum efnum auk sýkla. Tap á virkni og varnareiginleikum þekju kemur við sögu í flestum öndunarfærasjúkdómum og því mikilvægt að geta þróað lyf til að styrkja varnir lungna. Í því samhengi er mikil þörf fyrir frumuræktunarlíkön sem hægt er að nýta til að rannsaka og þróa ný lyf. Algengt vandamál tengt frumurækt er sérhæfingarfærni frumnanna sem nýttar eru. Ný tækni byggist á því að snúa við sérhæfingu líkamsfrumna og fá þannig fjölhæfar stofnfrumur sem síðan má sérhæfa í flestar frumugerðir líkamans, þ.m.t. lungnafrumur. Í þessu verkefni er ætlunin að safna einkjarnafrumum úr naflastrengsblóði og snúa sérhæfingu þeirra í átt að lungnaþekjufrumum. Líkönin sem stefnt er á að þróa munu geta gert mikið gagn þegar þróa á ný lyf sem eiga að miða að þekjustyrkingu.

Dr. Þorkell Guðjónsson, nýdoktor á rannsóknastofu í krabbameinsfræðum við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til að rannsaka hvaða áhrif arfblendin BRCA2-stökkbreyting hefur á DNA-viðgerð. BRCA2 er æxlisbæligen sem gegnir lykilhlutverki í DNA-viðgerð. Á Íslandi hefur verið greind stökkbreyting í BRCA2-geninu sem eykur mjög áhættu á að fá krabbamein. Þessi breyting finnst í um 7% kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein og 40% karla. Umrædd stökkbreyting er arfblendin sem þýðir að einungis annar litningur BRCA2-gensins er óvirkur. Samkvæmt hinu klassíska módeli um æxlisbæligen (e. Knudsons two hit hypothesis) er nauðsynlegt að gera æxlisbæligenið óvirkt á báðum litningum áður en æxlismyndun fer af stað. Markmið þessa verkefnis er að meta hvaða áhrif BRCA2 arfblendið ástand hefur á DNA-viðgerð. Hugsanlegt er að tap á annari BRCA2-samsætunni valdi galla í DNA-viðgerð sem gæti að einhverju leyti skýrt aukna hættu á krabbameini. Ef satt reynist munu niðurstöður verkefnisins breyta viðurkenndum hugmyndum um orsakir og þróun krabbameins í BRCA2-arfberum.

Enikö Bali lektor, Esther Ruth Guðmundsdóttir lektor og Steffen Mischke prófessor hlutu styrk til kaupa á hágæða víðsjá með stafrænni myndavél í tengslum við uppbyggingu rannsóknarýma í setlagafræði, eldfjallafræði og steingervingafræði við Jarðvísindastofnun og Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Víðsjá er mikilvægt grunntæki í jarðfræðirannsóknum, meðal annars til þess að rannsaka, lýsa og greina smásæ fyrirbæri eins og steingervinga, steindir, set og gjósku í þrívídd í 8-45 faldri stækkun. Víðsjáin mun stuðla að enn árangursríkari, nákvæmari og öruggari greiningum á smásæjum jarðfræðilegum fyrirbærum og  efla kennslu og þjálfun nemenda í þeim fögum innan jarðfræðinnar sem krefjast smásjárvinnu.

Þau Sigríður Rut Franzdóttir lektor, Zophonías O. Jónsson prófessor, Snæbjörn Pálsson prófessor, Arnar Pálsson dósent, Sigurður S. Snorrason prófessor, Ólafur S. Andrésson prófessor, Gísli Már Gíslason prófessor og Árni Einarsson, prófessor á Líffræðistofu, hlutu styrk til festa kaup á fullkominni víðsjá með stafrænni myndavél og tilheyrandi tölvubúnaði fyrir líffræðirannsóknir. Búnaðurinn mun nýtast í margs konar rannsóknir, svo sem myndgreiningu til að safna gögnum um fóstur, lífverur, líkamshluta eða vefi á stærðarskalanum 0,25 – 25 mm. Einnig í rannsóknir á fjölmörgum smærri hryggleysingjum og ungstigi margra hryggdýra, líkamshlutum lífvera, svo sem beinum og tönnum og fræjum plantna og margs konar plöntuhlutum. Þá er búnaðurinn einkar hentugur til að skoða tjáningarmynstur gena (in situ expression patterns) í heilum fóstrum eða fósturhlutum dýra og plöntuhlutum á mismunandi þroskaskeiðum en slíkt er lykilskref í rannsóknum á stjórnkerfum þroskunar. 

Um Eggertssjóð

Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.

Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1918. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. tengdum saumavélum. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau. 

Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið komið upp Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgerðarmaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands. 

Styrkhafar úr Eggertssjóði ásamt rektor Háskóla Íslands, Jóni Atla Benediktssyni.
Isabel Pilar Catalan Barrio og Jón Atli Benediktsson
Sævar Ingþórsson og Jón Atli Benediktsson
Þorkell Guðjónsson og Jón Atli Benediktsson
Esther Rut Guðmundsdóttir, Steffen Mischke og Jón Atli Benediktsson
 Sigurður S. Snorrason og Jón Atli Benediktsson
Styrkþegar ásamt rektor og stjórn Eggertssjóðs.