Skip to main content
21. desember 2016

Fimm doktorsvarnir við Menntavísindasvið á árinu

""

Mikill vöxtur hefur verið í doktorsnámi við Menntavísindasvið undanfarin ár en alls brautskráðust fimm doktorsefni frá sviðinu á árinu. Frá stofnun sviðsins árið 2008 hafa hátt í fjörutíu lokið doktorsprófi sem er einkar ánægjulegt og starfar þessi hópur á fjölbreyttum vettvangi víða um heim.

Eftirtalin doktorsefni brautskráðust á árinu:

Anna Guðrún Edvardsdóttir, doktor í menntavísindum, varði ritgerð sína við Uppeldis- og menntunarfræðideild þann 9. desember. Heiti ritgerðarinnar er: Samspil þekkingarsamfélagsins og byggðaþróunar á Íslandi og í Skotlandi. Leiðbeinandi hennar var Allyson Macdonald, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi var Frank Rennie, prófessor við Highlands and Islands háskóla í Skotlandi. Andmælendur voru Philomena De Lima, forstöðumaður UHI Centre for Remote and Rural Studies í Skotlandi, og Kristinn Hermannsson, lektor við Glasgow-háskóla.

G. Sunna Gestsdóttir, doktor í menntavísindum, varði ritgerð sína við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild þann 24. maí. Heiti ritgerðarinnar er: Andleg líðan á unglings- og snemmfullorðinsárum – Breyting á andlegri líðan sem og tengsl við þrek og hreyfingu. Leiðbeinandi hennar var Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, og meðleiðbeinandi var Erla Svansdóttir, heilsusálfræðingur við Landspítala – háskólasjúkrahús. Andmælendur voru Bente Wold, prófessor við Háskólann í Bergen í Noregi, og Elín Díanna Gunnarsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.

Hjördís Þorgeirsdóttir, doktor í menntavísindum, varði ritgerð sína við Uppeldis- og menntunarfræðideild þann 14. desember 2015. Doktorsgráða hennar er sameiginleg frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Exeter á Englandi. Heiti ritgerðarinnar er: Breytingastofa í framhaldsskóla á Íslandi – Tilraunastofa um breytingar og starfendarannsókn. Leiðbeinendur hennar voru Keith Postlethwaite og Nigel Skinner við Háskólann í Exeter, og Hafþór Guðjónsson, dósent við Kennaradeild. Aðalprófdómarar voru Bridget Somekh, prófessor emerita við Manchester Metropolitan University á Englandi, Karen Walshe, lektor við Háskólann í Exeter, og Jón Torfi Jónasson, prófessor við Kennaradeild.

Jónína Vala Kristinsdóttir, doktor í menntavísindum, varði ritgerð sína við Uppeldis- og menntunarfræðideild þann 11. nóvember. Heiti ritgerðarinnar er: Námssamfélag um stærðfræðikennslu – Að þróa samvinnurannsókn um kennslu í grunnskóla og kennaramenntun. Leiðbeinandi hennar var Allyson Macdonald, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, og meðleiðbeinandi var Barbara Jaworski, prófessor við Loughborough-háskóla á Englandi. Andmælendur voru Simon Goodchild, prófessor við Háskólann í Agder í Noregi, og Tom Russell, prófessor við Queens-háskóla í Ontario í Kanada.

Ragný Þóra Guðjohnsen, doktor í menntavísindum, varði ritgerð sína við Uppeldis- og menntunarfræðideild þann 27. september. Heiti ritgerðarinnar er: Hugmyndir ungs fólks um hvað það merki að vera góður borgari – Þáttur samkenndar, sjálfboðaliðastarfs og uppeldishátta foreldra. Leiðbeinandi hennar var Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild. Andmælendur voru Daniel Hart, prófessor við Rutgers-háskóla í Bandaríkjunum, og Wiel Veugelers, prófessor við University for Humanistic Studies í Utrecht í Hollandi.

Menntavísindasvið óskar þeim hjartanlega til hamingju með áfangann.

Myndir frá hátíð brautskráðra doktora 2016

Doktorar frá Menntavísindasviði á hátíð brautskráðra doktora sem fram fór í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 1. desember síðastliðinn. Frá vinstri: Sunna Gestsdóttir, Ragný Þóra Gudjohnsen, Jóhanna Einarsdóttir, Hjördís Þorgeirsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir. Á myndina vantar Önnu Guðrúnu Edvardsdóttur.