Skip to main content
21. júní 2016

Fengu verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir

""

Félag stjórnmálafræðinga veitti sín fyrstu verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í stjórnmálafræði sem skilað var árið 2015. Verðlaunin voru veitt í lok fyrstu ráðstefnu stjórnmálafræðinga, þann 16.júní sl., og mun félagið veita þessi verðlaun árlega héðan í frá.

Veitt voru ein verðlaun fyrir ritgerð á BA-stigi og ein fyrir ritgerð á meistarastigi. Verðlaunahafar eru þeir Jón Þór Kristjánsson fyrir BA-ritgerð sína „Þróun hugmyndarinnar um fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu á vettvangi íslenskra stjórnmála“, og Sverrir Steinsson fyrir meistararitgerð sína „Why Did the Cod Wars Occur and Why Did Iceland Win Them? A Test of Four Theories“ (í. „Hví áttu þorskastríðin sér stað og hví hafði Íslandsigur? Fjórar kenningar prófaðar“). Leiðbeinandi Jóns Þórs var Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og leiðbeinendur Sverris voru Silja Bára Ómarsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson.

Í framúrskarandi BA-ritgerð Jón Þórs varpar hann ljósi á hvernig hugmyndin um fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu komst á dagskrá stjórnvalda og af hverju hún er umdeild. Með því að beita kenningum í opinberri stjórnsýslu sýnir hann fram á það að togstreita/spenna ríkir á milli tveggja meginmarkmiða opinberra stjórnsýslu, sem eru jöfnuður og skilvirkni. Jón Þór leggur nú stund á meistaranám í opinberri stefnumótun við Edinborgarháskóla. Pétur Gunnarsson tók við verðlaununum fyrir hönd Jóns Þórs.

Í framúrskarandi meistararitgerð Sverris Steinssonar spyr hann af hverju þorskastríðin áttu sér stað og hvers vegna smáríkið Ísland bar sigurorð af breska heimsveldinu, og beitir hann til þess viðteknum kenningum í alþjóðasamskiptum. Sverrir kemst að þeirri niðurstöðu að deilur ríkjanna stigmögnuðust vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum heima fyrir í löndunum tveimur, en þegar öryggishagsmunum þjóðanna var teflt í tvísýnu, áttu leiðtogar Bretlands auðveldara með að gefa eftir af sínum ítrustu kröfum en leiðtogar Íslands. Grein byggð á ritgerðinni hefur nú þegar verið birt í alþjóðlega ritrýnda tímaritinu, European Security, (DOI:10.1080/09662839.2016.1160376). Sverrir starfar nú sem aðstoðarmaður í rannsóknum við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Báðar ritgerðirnar eru að finna í opnum aðgangi á skemman.is - í hópi fjölbreyttra ritgerða sem skilað hefur verið í stjórnmálafræði.

Í dómnefnd um val á framúrskarandi BA-ritgerð sátu Eva H. Önnudóttir, Grétar Þór Eyþórsson og Gunnvör Rosa. Í dómnefnd um val á framúrskarandi meistaritgerð voru Eva Marín Hlynsdóttir, Bjarni Bragi Kjartansson og Agnar Freyr Helgason.

Jón Þór Kristjánsson fékk verðlaun fyrir framúrskarandi BA-ritgerð
Sverrir Steinsson (t.v.) fékk verðlaun fyrir framúrskarandi MA-ritgerð. Pétur Gunnarsson tók við verðlaununum fyrir hönd Jóns Þórs
Jón Þór Kristjánsson fékk verðlaun fyrir framúrskarandi BA-ritgerð
Sverrir Steinsson (t.v.) fékk verðlaun fyrir framúrskarandi MA-ritgerð. Pétur Gunnarsson tók við verðlaununum fyrir hönd Jóns Þórs