Skip to main content
26. maí 2017

Fengu styrki til náms í Bandaríkjunum

""

Fimm núverandi og fyrrverandi nemendur Háskóla Íslands fengu á dögunum styrk frá Fulbright-stofnuninni á Íslandi náms í Bandaríkjunum. Þeir hafa fengið inngöngu í suma af bestu háskólum heims. 

Fulbright-stofnunin á Íslandi veitir á ári hverju styrki til íslenskra og bandarískra náms- og fræðimanna til rannsókna og náms í löndunum tveimur. Móttaka til heiðurs þeim Íslendingum sem fá styrk í ár var haldin þann 17. maí í Ráðherrabústaðnum að viðstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra og Jill Esposito, staðgengli sendiherra Bandaríkjanna.

Að þessu sinni hlutu eftirfarandi nemar styrki: 

Fannar Freyr Ívarsson til meistaranáms í lögfræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley en hann lauk mag.jur. prófi frá Háskóla Íslands árið 2012.

Gunnlaugur Geirsson til meistaranáms í alþjóðalögum en hann hlýtur jafnframt  Cobb Family Fellowship styrk til náms við Miami-háskóla. Gunnlaugur lauk mag.jur. prófi frá Háskóla Íslands árið 2011.

Júlía Arnardóttir til meistaranáms í vélaverkfræði við Stanford-háskóla en hún lak BS-prófi í sömu grein frá Háskóla Íslands vorið 2016.

Kristófer Másson til meistaranáms í hugbúnaðarverkfræði við Drexel-háskóla en hann er að ljúka BS-námi í sömu grein frá Háskóla Íslands.

Ólafur Darri Björnsson til meistara- og doktorsnáms í alþjóðasamskiptum við Chicago-háskóla, en hann hefur þegar lokið BA-námi í stjórnmálafræði og er langt kominn í meistaranámi í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands.

Auk þeirra hlaut Jón Atli Tómasson styrk til þátttöku í sumarnámsstefnu á sviði borgaralegrar þátttöku við Suður-Karólínuháskóla.

Á myndinni, sem tekin var í móttökunni, eru frá vinstri: Ólafur Darri Björnsson, Jón Atli Tómasson, Fannar Freyr Ívarsson, Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra Jill Esposito, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna, Gunnlaugur Geirsson, Júlía Arnardóttir, Kristófer Másson og Belinda Theriault, framkvæmdastjóri Fulbright-stofnunarinnar.