Skip to main content
16. apríl 2015

Félagsráðgjafardeild og Hagstofan semja um samstarf

Nemendum í meistaranámi við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands gefst tækifæri á að vinna lokaverkefni í samstarfi við Hagstofu Íslands samkvæmt nýjum samningi sem undirritaður var í Háskóla Íslands 11. mars.

Markmið samningsins er að auka rannsóknasamstarf Hagstofunnar og Félagsráðgjafardeildar en það er talið hagur beggja að bæta þannig tengsl Hagstofu Íslands og fræðasamfélagsins. „Með samstarfssamningnum er metnaðarfullum nemendum gert kleift að vinna að mikilvægum rannsóknum á íslensku þjóðlífi, með áherslu á velferðar- og fjölskyldumálefni, og þannig auka við þekkingu sína, færni við meðferð gagna og reynslu sína af rannsóknarvinnu,“ segir einnig í samningnum. Um leið gerir samningurinn Hagstofunni kleift að auka gæði sinna gagna með aðstoð nemendanna.

Samkvæmt samningnum munu bæði Hagstofan og Félagsráðgjafardeild móta hugmyndir að verkefnum sem nemendur geta unnið fyrir Hagstofuna og nýst geta þeim við gerð lokaritgerðar sinnar við deildina. Aðalleiðbeinandi í verkefnunum skal ætíð vera fastur kennari Félagsráðgjafardeildar en meðleiðbeinandi getur komið frá Hagstofu Íslands.

Hagstofa Íslands mun útvega þeim nemendum sem vinna að verkefnum á vegum stofnunarinnar tímabundna aðstöðu til að sinna rannsóknarvinnu sinni, aðgang að þeim gögnum sem nauðsynleg eru fyrir verkefnið og aðstoð sérfræðinga stofnunarinnar.  Miðað er við að tímamörk verkefna verði eitt misseri, um fjórir mánuðir.

Samninginn milli Hagstofu Íslands og Félagsráðgjafardeildar undirrituðu Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri og þau Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, og Sigurveig H. Sigurðardóttir, deildarforseti Félagsráðgjafardeildar, fyrir hönd Háskóla Íslands en meðal viðstaddra við undirritunina var Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Frá undirritun samnings Félagsráðgjafardeildar og Hagstofunnar.
Frá undirritun samnings Félagsráðgjafardeildar og Hagstofunnar.