Skip to main content

Féð kemur af fjalli á Háskólatónleikum

14. feb 2017

Tvö verk verða frumflutt á Háskólatónleikum sem fram fara í kapellu Aðalbyggingar Háskólans miðvikudaginn 15. febrúar kl. 12.30-13.00. Fram koma Guðrún Hrund Harðardóttir, víóla, Guðrún Óskarsdóttir, semball, Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðla, Magnea Árnadóttir, flauta, Sigurður Halldórsson, selló, og Kolbeinn Bjarnason. Tónleikarnir eru öllum opnir.

Á efnisskrá eru tríósónata í e-moll QV 2:Anh.14 eftir Johann Joachim Quantz (1697-1773), Passacaille – Des miroirs brisés (2015) eftir Kolbein Bjarnason og Féð kemur af fjalli (2014) eftir Hans-Henrik Nordström. Verk Kolbeins og Nordströms verða frumflutt á tónleikunum.

Johann Joachim Quantz starfaði m.a. sem tónlistarstjóri og flautuleikari við hirð Friðriks mikla í Berlín og Potzdam. Starf hans þar fólst í að skipuleggja kvöldtónleika konungs, þar sem Friðrik mikli lék gjarnan sjálfur á flautu en hann hafði verið nemandi Quantz frá unga aldri. Quantz skrifaði kennslubók í flautuleik: Versuch einer Anweisung die Flöte traversiere zu spielen (1752); bókin er grundvallarrit um túlkun barokktónlistar og flautuleiks. Hann samdi yfir 200 sónötur fyrir flautu og fylgirödd, 45 tríósónötur og ótrúlegan fjölda flautukonserta. Tríósónatan í e-moll er hefðbundin kirkjusónata, sonata da chiesa, þar sem skiptast á hægir og hraðir þættir.

Kolbeinn Bjarnason hefur lengst af starfað sem flautuleikari en hefur á síðustu árum snúið sér að tónsmíðum. Verkið Passacaille – Des miroirs brisés, (Passakalía – Brotnir speglar) er sjötti og síðasti kaflinn í verkinu Danses achroniques (Tímalausir dansar) fyrir einleikssembal. Allir kaflarnir byggja á hefðbundnum köflum barokksvítunnar. Í passakalíunni er leitast við að spegla ýmislegt úr fyrri köflum verksins. Passakalíu-stefið sjálft er líka speglað og því er umsnúið þar til ekkert stendur eftir óbrenglað. Verkið kom út í heild sinni á geisladiski Guðrúnar með nýrri íslenskri sembaltónlist í desember síðastliðnum – en hefur ekki verið flutt á tónleikum fyrr en nú. 

Danska tónskáldið Hans-Henrik Nordström er mikill Íslandsvinur og hefur margoft dvalið hér við tónsmíðar. Hann býr inni í skógi á miðju Sjálandi og sækir einatt innblástur til náttúrunnar.  Um Féð kemur af fjalli segir tónskáldið: „Á ferðalögum mínum um norðlægar slóðir – Írland, Skotland, Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltland, Færeyjar, Noreg og ekki síst Ísland – hef ég orðið fyrir margs konar áhrifum. Náttúran, gróðurinn, dýralífið og sagan tvinnast saman í heim sem er á margan hátt mjög ólíkur t.d. meginlandi Evrópu. Mörg okkar sem búum á meginlandinu snúa gjarnan aftur og aftur til norðlægra slóða, jafnvel þótt aðeins fá okkar dreymi um að búa þar að staðaldri. Ég ákvað eftir nokkra umhugsun að meginþema þessa verks, sem er skrifað fyrir barokkhljóðfæri, skyldi vera göngurnar sem fara fram á hverju hausti þegar kindum er smalað heim úr óbyggðum. Í verki mínu eru það kindurnar sjálfar sem kynna verkið í byrjun og svo hefst leikurinn.“

Guðrún Hrund Harðardóttir, víóla, Guðrún Óskarsdóttir, semball, Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðla, Magnea Árnadóttir, flauta, Sigurður Halldórsson, selló, og Kolbeinn Bjarnason, flauta.