Skip to main content
7. desember 2016

Fánýt þekking?

""

Út er komin bókin Minor Knowledge and Microhistory. Manuscript Culture in the Nineteenth Century hjá hinu þekkta alþjóðlega bókaforlagi Routledge. Höfundar hennar eru sagnfræðingarnir Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og Davíð Ólafsson, aðjunkt í menningarfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.   

Bókin, sem byggir á ítarlegum rannsóknum höfundanna tveggja á efninu um nærri tveggja áratuga skeið, fjallar um hversdagslega iðkun bókmenningar meðal alþýðufólks á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. Sú iðkun, sem fór að mestu leiti fram utan vébanda formlegrar menntunar og menningarstofnana, er í bókinni sett í samhengi við erlendar rannsóknir síðustu áratuga á handritamenningu og læsisiðkun eftir prentvæðingu og fyrri rannsóknir á sögu læsis og bókmenningar á Íslandi.

Bókinni er skipt niður í þrjá meginhluta. Í fyrsta hlutanum er fjallað um fræðilega og historiographíska nálgun á viðfangsefni út frá alþjóðlegri umræðu um handritamenningu eftir prentbyltingu Gutenbergs, og nýja strauma í læsisrannsóknum sem leggja áherslu á iðkun (e. practices) og atbeina (e. agency) . Þá er í þessum hluta ennfremur fjallað um gildi aðferða einsögunnar (e. microhistory) fyrir þessar tegundir rannsókna og hún rædd í samhengi við andstæðuparið staðbundið (e. local) og hnattrænt (e. global).

Í öðrum hluta bókarinnar er að finna ákveðna sviðsetningu á íslensku samfélagi nítjándu aldar og þeim ytri aðstæðum sem alþýða manna bjó við. Þröngum lífskjörum fólks í blásnauðu og vanbúnu örsamfélagi með veikum innviðum er þar stillt upp sem bakgrunni fyrir sögu þeirra einstaklinga sem fjallað er um í bókinni og gerðu ritstörf, skáldskap og fræðimennsku að miðpunkti síns lífs, þrátt fyrir að hafa hvorki notið formlegrar menntunar né sterkrar efnahaglegrar og félagslegrar stöðu. Í kaflanum er einnig gerð grein fyrir ólíkum sjónarmiðum fræðimanna til útbreiðslu menntunar og tengsl hennar við til dæmis tilfinningalíf fólks og ytri aðstæður; hversdagslífið.

Í þriðja hluta bókarinnar birtist greining á lífi og starfi nokkurra einstaklinga sem tilheyrðu hópi alþýðurfræðimanna og -skálda,  hinum svonefndu „berfættu sagnfræðingum“ (e. Barefoot Historians). Um er að ræða hóp karlmanna sem lengst af bjuggu á vesturhluta landsins og tilheyrðu þar lægri stéttum bændasamfélagsins, allt frá fátækum leiguliðum niður í ómaga og þurfamenn. Allir áttu þeir sameiginlegt að hafa skilið eftir sig mikið magn persónulegra heimilda og sjálfskrifa, sem rannsóknin byggir að miklu leiti á; sjálfsævisögur, dagbækur og sendibréf, auk mikils magns af skrifuðu efni öðru. Í þessum hluta bókarinnar er reynt að meta hvaða gildi þessi starfsemi þeirra hafði haft fyrir samhengi íslenskrar og alþjóðlegrar alþýðumenningar, þessa hóps sem sat daglangt og árlangt og kepptist við að skrifa upp gamalt og nýtt efni, skapa sín eigin fræði og deila efninu með samferðamönnum sínum.

Bókin er rétt um 240 blaðsíður. Hún fæst í Bóksölu stúdenta.

Sjá viðtöl við höfund bókarinnar; við Davíð Ólafsson á íslensku og umfjöllun Sigurðar Gylfa Magnússonar um verkið á ensku.

Sigurður Gylfi og Davíð Ólafsson.
Bókakápa Minor Knowledge and Microhistory. Manuscript Culture in the Nineteenth Century
Sigurður Gylfi og Davíð Ólafsson.
Bókakápa Minor Knowledge and Microhistory. Manuscript Culture in the Nineteenth Century