Skip to main content
16. janúar 2015

Fæðingarstaður stjarna í fræðslugöngu HÍ og FÍ

Fegurð himingeimsins verður í forgrunni í stjörnu- og norðurljósagöngu sem Sævar Helgi Bragason, verkefnisstjóri við Háskóla Íslands og kennari í Háskóla unga fólksins og Háskólalestinni, mun leiða skammt utan Reykjavíkur á morgun, laugardaginn 17. janúar kl. 20. Gangan er sú fyrsta af níu ferðum sem Háskóli Íslands, Ferðafélag Íslands og undirdeild þess, Ferðafélag barnanna, standa saman að á þessu ári undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“. Ferðirnar eru hugsaðar fyrir alla fjölskylduna og aðgangur að þeim ókeypis.

Sævar Helga þarf vart að kynna enda hefur hann verið óþreytandi að miðla stjörnufræði bæði til yngstu kynslóðarinnar í skólum landsins og í fjölmiðlum en auk þess heldur hann úti Stjörnufræðivefnum og er einnig formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Aðspurður segir hann áhugann á stjörnufræði eiginlega meðfæddan. „Ég man eftir því þegar ég var pínulítill að glápa upp í himinninn og fannst þetta ótrúlega heillandi. Svo var ég svo heppinn að ganga í skólann í myrkri á morgnana og starði eiginlega meira upp í himinninn en á gangstéttina fyrir framan mig, alveg heillaður af þessum punktum þarna uppi. Á bókasafninu í skólanum tók ég síðan stjörnufræðibók en var góðfúslega beðinn að skila henni þar sem hún var ekki alveg við mitt hæfi, heldur aðeins eldri krakka en 6 ára. Þegar ég var átta ára sá ég svo Satúrnus í fyrsta sinn í gegnum sjónauka og eftir það var bara ekki aftur snúið,“ segir hann.

Aðspurður hvað heilli mest við himinhvolfið stendur ekki á svari hjá Sævari. „Fegurðin fyrst og fremst. Fjarlægðin er heillandi, stærðirnar og dulúðin en fyrirbærin sem við erum að skoða í gegnum sjónauka og með berum augum eru mörg hver ótrúlega falleg. Fegurðin eykst svo aðeins þegar maður veit hvers eðlis fyrirbærin eru. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að geta séð staði í geimnum þar sem stjörnur eru að fæðast eða leifar sprunginna stjarna, nú eða vetrarbrautir sem eru svo langt í burtu að ljósið frá þeim lagði af stað þegar risaeðlur ríktu á Jörðinni.“

Halastjarnan Lovejoy og Júpíter í sjónaukanum
Gangan á morgun hefst kl. 20 við skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 en þaðan verður ekið í halarófu út fyrir borgarmörkin, upp í Heiðmörk, fram hjá Rauðhólum og að Elliðabænum við Elliðavatn. Þar verður bílunum lagt og gengið með fram vatninu. „Við ætlum að skoða himinninn með berum augum og með sjónaukum. Ég ætla að segja sögur af stjörnumerkjunum vopnaður grænum leysibendli, löglegum að sjálfsögðu, og benda á það sem sjá má með berum augum og handsjónaukum. Ég hvet því alla til að koma með handsjónauka. Ég ætla líka að beina sjónauka að halastjörnunni Lovejoy sem sést á himninum þessa dagana, skoða fæðingarstað stjarna og fjarlæga vetrarbraut, svo fátt eitt sé nefnt. Júpíter kemur síðan upp á himinninn og þá munum við að sjálfsögðu skoða hann,“ segir Sævar og minnir jafnframt á að mikilvægt sé að klæða sig vel fyrir gönguna enda getur orðið kalt á þessum tíma.

Áætlað er að ferðin taki um 2-3 klst. en hún er farin í samstarfi við Ferðafélag barnanna, undirdeild Ferðafélags Íslands. Það er því tilvalið fyrir fjölskylduna að skella sér í hressandi göngu og fræðast um leið um himintunglin.

Þetta er fimmta árið í röð sem Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands standa saman að göngu- og hjólaferðum undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum ferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Nánari upplýsingar um næstu ferðir má fá á vef Háskóla Íslands.

 

„Ég man eftir því þegar ég var pínulítill að glápa upp í himinninn og fannst þetta ótrúlega heillandi. Svo var ég svo heppinn að ganga í skólann í myrkri á morgnana og starði eiginlega meira upp í himinninn en á gangstéttina fyrir framan mig, alveg heillaður af þessum punktum þarna uppi,“ segir Sævar Helgi Bragason sem leiðir stjörnu- og norðuljósagöngu á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna laugardaginn 17. janúar.
„Ég man eftir því þegar ég var pínulítill að glápa upp í himinninn og fannst þetta ótrúlega heillandi. Svo var ég svo heppinn að ganga í skólann í myrkri á morgnana og starði eiginlega meira upp í himinninn en á gangstéttina fyrir framan mig, alveg heillaður af þessum punktum þarna uppi,“ segir Sævar Helgi Bragason sem leiðir stjörnu- og norðuljósagöngu á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna laugardaginn 17. janúar.