Skip to main content
23. september 2016

Evrópska tungumáladeginum fagnað í HÍ

""

Í tilefni af Evrópska tungumáladeginum, mánudaginn 26. september nk., stendur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands fyrir hátíðardagskrá í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi.

Dagskráin ber yfirskriftina „Þýðingar, tungumálakunnátta og heimsmynd okkar“ og fer fram á milli kl. 16 og 19 í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Dagskráin hefst á því að Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál, setur málþingið. Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, kynnir í framhaldinu hlutverk og markmið Vigdísarstofnunar – alþjóðlegar miðstöðvar tungumála og menningar en hún verður til húsa í nýbyggingu sem nú rís vestan Suðurgötu. Að loknu erindi Auðar tekur Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur við og fjallar umThor Vilhjálmsson og þýðingar hans.

Að loknu kaffihléi flytur Háskólakórinn lög undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar kórstjóra.

Þá er komið að Hafdísi Ingvarsdóttur, prófessor emeritus, sem flytur erindið „Reikar dóttir sjómannsins enn um skóginn? Hugleiðingar um nám og kennslu í tungumálum í hálfa öld“. Guðbergur Bergsson, rithöfundur og þýðandi, slær svo botninn í málþingið með erindi sem hann kýs að kalla „Hvað þýðir það að þýða?“

Fundarstjóri er Petrína Rós Karlsdóttir, formaður STÍL.

Tungumálakennarar og annað áhugafólk um tungumál og menningu er hvatt til að mæta.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

„Þýðingar, tungumálakunnátta og heimsmynd okkar“ er yfirskrift Evrópska tungumáladagsins í ár.
Guðmundur Andri Thorsson, Hafdís Ingvarsdóttir og Guðbergur Bergsson eru meðal þeirra sem taka þátt í málþinginu á Evrópska tungumáladaginn.
„Þýðingar, tungumálakunnátta og heimsmynd okkar“ er yfirskrift Evrópska tungumáladagsins í ár.
Guðmundur Andri Thorsson, Hafdís Ingvarsdóttir og Guðbergur Bergsson eru meðal þeirra sem taka þátt í málþinginu á Evrópska tungumáladaginn.