Skip to main content
20. júní 2016

Eru álfar til?

""

„Átrúnaður á aðra tegund fólks sem byggir jörðina með mönnum, en er ósýnilegt sjónum þeirra, hefur fylgt mannkyninu frá því að sögur hófust. Frásagnir af högum þess, híbýlum og samskiptum við mannfólkið hafa gengið mann fram af manni." Svona svarar Vísindavefurinn spurningunni um tilvist álfa en á honum kemur jafnframt fram að þeir sem gæddir eru sérstökum gáfum komi annað slagið auga á þetta dula samferðafólk okkar.

Þriðjudaginn 21. júní er tilvalið að kanna hvort eitthvað sé hæft í því að álfar séu til en þá verður farið í sérstaka álfagöngu að Helgufossi í Mosfellsdal og álfabyggðin í Hrafnakletti heimsótt. Í ferðinni mun Júlíana Þóra Magnúsdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands fræða göngumenn um álfa og þeir verða auk þess heiðraðir með dansi og söng.

Hist verður kl. 16 á einkabílum við skrifstofu Ferðafélags Íslands að Mörkinni 6. Áætlað er að gangan taki um 2-3 klukkustundir. Veðurspá er prýðileg fyrir morgundaginn en ágætt er að hafa með sér skjólgóð föt ef eitthvað myndi ýra úr lofti.

Á Vísindavefnum segir líka að það sé vandasamt að fullyrða nokkuð um „trú“ á álfa og huldufólk. „Fyrir nokkrum árum var gerð könnum í samstarfi þjóðfræða í Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Erlends Haraldssonar, prófessor emeritus í sálfræði, en hann hafði einmitt gert svipaða könnun árið 1974. Könnunin sýnir að þótt fáir Íslendingar segjast beinlínis „trúa“ á álfa og huldufólk, eru þeir einnig mjög fáir sem neita tilveru þeirra. Flestir virðast vera opnir fyrir hugmyndinni um álfa og huldufólk. Þeir reyna að fara varlega við álagabletti og eru á móti því að álfasteinar séu eyðilagðir," segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Gangan þann 21. júní er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum.

Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.

Þátttaka ókeypis og allir velkomnir.

Álfaganga í Mosfellsdal
Álfaganga í Mosfellsdal