Skip to main content
7. janúar 2016

Erlendur með nýja bók um Indriða miðil

""

Út er komin bók í Englandi eftir Erlend Haraldsson, prófessor emeritus, um upphaf spíritismans hér á landi og Indriða Indriðason, fyrsta íslenska miðilinn. Bókin heitir Indridi Indridason  - The Icelandic Physical Medium á ensku. Loftur R. Gissurarson ritaði bókina með Erlendi.

Erlendur Haraldsson er fyrrverandi prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands en hann hefur leitað svara við spurningunni sem flestir vísindamenn hafa sniðgengið: Er líf á undan og eftir þessu? Erlendur hefur verið einstaklega atkvæðamikill og m.a. rannsakað skynjanir á dánarbeði, störf miðla, kraftaverkamenn, reynslu manna af látnum og gert kannanir á trú og reynslu Íslendinga af hinu yfirskilvitlega. 

„Samtímaheimildir herma að á miðilsfundum Indriða hafi gerst mikil undur og kraftaverk sem urðu eitt heitasta umræðuefni Reykvíkinga á árunum 1905-1909. Frægar urðu umfangsmiklar rannsóknir Guðmundar Hannessonar, prófessors og síðar rektors við Háskóla Íslands, sem lét ekkert ógert til að koma í veg fyrir hugsanleg svikabrögð eða blekkingar,“ segir Erlendur. 

„Guðmundur, sem aðrir, varð vitni að hreyfingum og lyftingum dauðra hluta og miðilsins sjálfs, ýmiss konar ljósfyrirbærum, og heyrði raddir tala og syngja sem kæmu þær úr ósýnilegum börkum, stundum fleiri en ein rödd í senn,“ segir Erlendur.  

Erlendur segir að bókin byggist að verulegu leyti á nýfundnum fundargerðabókum Tilraunafélagsins sem Haraldur Níelsson, prófessor í Guðfræðideild, Björn Jónsson, ritstjóri og síðar ráðherra, og Einar Hjörleifsson Kvaran rituðu. 

Fáir Íslendingar hafa ritað fleiri fræðibækur en Erlendur. Ein bóka hans er um kraftaverkamanninn Śri Sathya Sai Baba frá Indlandi, sem gerðist svo djarfur að sögn Erlendar að breyta vatni... ekki í vín, heldur í bensín þegar mikið lá við. „Maður getur vart sagt frá því sem Sai Baba virtist gera því margt var með slíkum ólíkindum. Sai Baba sagði til dæmis félögum sínum að setja vatn á bensíntanka á bílum sem urðu eldsneytislausir í afskekktu þorpi þar sem ekkert bensín var að fá. Eins og hendi væri veifað ruku vélarnar í gang á bensínlausum bílunum og virtust þeir ganga fyrir vatninu einu saman,“ segir Erlendur og brosir. 

Erlendur er á því að ef rannsóknum verði haldið áfram á dulrænum fyrirbærum geti niðurstaðan orðið sú á endanum að „við getum sagt með vissu hvort þetta líf hér og nú sé það eina sem við lifum eða hvort við eigum annað í vændum og höfum jafnvel lifað öðru eða öðrum á undan þessu.“

Þess má geta að áhugi Erlendar á því yfirnáttúrulega varð kveikjan að stofnun styrktarsjóðs við Háskóla Íslands fyrir ekki alls löngu. Sjóðurinn styrkir rannsóknir á dulrænum fyrirbærum og meintri dulrænni reynslu. „Mér finnst mikilvægt, að rannsóknum sé haldið áfram á því sviði sem ég hef sinnt lengst af á mínum starfsferli en þeim hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Þær eru mikilvægar því þær fjalla um eðli mannsins," segir Erlendur. 

Nýja bókin, Indridi Indridason  - The Icelandic Physical Medium, er 270 blaðsíður, prýdd um 30 myndum og gefin út af White Crow Books.

Erlendur Haraldsson
Erlendur Haraldsson