Skip to main content
28. júní 2017

Er kominn tími á að skima fyrir lungnakrabbameini á Norðurlöndum?

Á dögunum kom út vísindagrein í Acta Oncologica sem ber heitið „Implementation of lungcancer CT screening in the Nordic countries“. Greinina skrifa 15 læknar  frá öllum norrænu ríkjunum en þeir velta því upp hvort ekki sé tímabært að hefja sameiginlega skipulega leit að lungnakrabbameini alls staðar á Norðurlöndum. Einn höfunda greinarinnar er Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild og yfirlæknir á skurðsviði Landspítala, sem hefur mikið sinnt lungnakrabbameinssjúklingum hér á landi og stundað rannsóknir tengdar sjúkdómnum.

Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið hjá báðum kynjum alls staðar á Norðurlöndum og leggur fleiri einstaklinga að velli en nokkurt annað krabbamein. Ástæðan er sú að einkenni geta verið lúmsk og blandast við einkenni sem tengjast langvarandi reykingum, eins og hósta og lungnabólgu. Af þessum sökum greinist meinið oft seint en við greiningu hafa tveir af hverjum þremur krabbamein sem hefur breitt sér út fyrir lungað. Greinist meinið fyrr er hins vegar hægt að lækna það með skurðaðgerð þar sem hluti lungans er numinn á brott.

Hingað til hefur formleg skimun á lungnakrabbameini með tölvusneiðmyndum ekki verið gerð á Norðurlöndunum. Margt bendir þó til þess að slík skimun geti verið þjóðhagslega hagkvæm en mestur er ávinningurinn þó hjá þeim einstaklingunum sem eiga í hlut og fjölskyldum þeirra. Nýleg bandarísk rannsókn, National Lung Screeing Trial  (NLST), sem náði til rúmlega 53 þúsund einstaklinga, sýndi að skimun lækkaði dánartíðni vegna lungnakrabbameinsins um 20% hjá 50-75 ára sjúklingum sem höfðu langa reykingasögu. Nokkrar aðrar stórar rannsóknir standa nú yfir, m.a. í Hollandi og Belgíu (NELSON-study) og Kaupmannahöfn, sem virðast gefa sterklega til kynna að ávinningur sé af skimun. Því hafa ýmis samtök lækna, bæði vestan hafs og austan, en einnig tryggingarfyriræki í Bandaríkjunum, mælt með skimun og tekið þátt í að greiða kostnað við hana. 

Í grein læknanna fimmtáni í Acta Oncologica er leitt líkum að því að skynsamlegt gæti verið að taka upp hið fyrsta slíka skimun á Norðurlöndum. Höfundar mæla með að skimun ætti að bjóða öllum sjúklingum á aldrinum 55-80 ára sem hafa reykt í 30 ár, reykja enn eða hættu reykingum fyrir innan við  15 árum.  Æskilegt væri að um samnorrænt verkefni væri að ræða en skimuninni þó stýrt frá hverju landi fyrir sig. Talið er að tæplega 10 þús einstaklingar kæmu til greina fyrir slíka skimun hér á landi en tækjabúnaður er til staðar og aðgengi að tölvusneiðmyndum mjög gott.

Í baráttunni við lungnakrabbamein er reykleysi þó mikilvægast enda talið að rekja megi allt að 90% tilfella beint til reykinga. Á Íslandi hefur náðst afar góður árangur í tóbaksvörnum, ekki síst hjá yngra fólki, en aðeins 11,4% fullorðinna Íslendinga reykja. Hlutfall reykingarmanna er óvíða lægra á heimsvísu og  gefur fyrirheit um að það eigi eftir að draga úr tíðni þessa illvæga sjúkdóms í framtíðinni.  Fyrir þá fjölmörgu sem hafa sögu um reykingar og eru komnir á miðjan aldur er skimun öflugasta leiðin til að greina meinið fyrr og bæta horfur sjúklinganna.

Tómas Guðbjartsson
Tölvusneiðmyndatæki