Skip to main content
3. febrúar 2017

Enn hægt að taka þátt í Blóðskimun til bjargar

""

Viðtökur landsmanna við Blóðskimun til bjargar – þjóðarátaki gegn mergæxlum hafa verið frábærar, en verkefnið leiðir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands. Nú þegar hafa rúmlega 63 þúsund manns um allt land skráð sig til þátttöku en enn er hægt að skrá sig til þátttöku.

Þjóðarátakið hófst um miðjan nóvember síðastliðinn þegar 148 þúsund manns á landinu öllu, sem fæddir eru árið 1975 eða fyrr, fengu boð um að vera með. Því hafa rúm 42% þeirra skráð sig til þátttöku og hefur rannsókninni þegar borist blóðsýni frá um sjö þúsund þátttakendum. 

Sigurður Yngvi Kristinsson segist afar þakklátur fyrir þessi frábæru viðbrögð enda er góð þátttaka lykillinn að því að hún skili árangri. „Það er einstakt hversu vel landsmenn hafa brugðist við og þannig lagt lið mikilvægri vísindarannsókn,“ segir Sigurður Yngvi. „Ég vil koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa skráð sig til þátttöku. Þá vil ég hvetja þau sem ekki hefur gefist ráðrúm til að skrá sig, til þess að kynna sér rannsóknina á www.blodskimun.is og skrá sig til þátttöku ef þeim svo þóknast. Því fleiri sem skrá sig, því meiri líkur eru á að árangur náist.“ Ef þátttakendum heldur áfram að fjölga á næstu mánuðum gæti hún orðið stærsta vísindarannsókn sinnar tegundar sem framkvæmd hefur verið í heiminum. 

Getur bætt lífsskilyrði þeirra sem eru með mergæxli

Kristín Einarsdóttir sem hefur barist við mergæxli og situr í stjórn Perluvina, félags mergæxlissjúklinga, er einnig þakklát fyrir viðtökurnar. „Við erum afar þakklát fyrir þessi viðbrögð landsmanna því rannsóknin getur orðið til þess að bæta lífsskilyrði þeirra sem hafa greinst með mergæxli og ekki síður þeirra sem eiga eftir að greinast,“ segir Kristín. „Með þátttöku í rannsókninni eykur fólk sem er með forstig mergæxlis einnig líkurnar á því að greinast snemma sem mun vonandi tryggja þeim viðeigandi meðhöndlun fyrr en ella og þannig auka lífsgæði þeirra til frambúðar.“

Enn hægt að skrá sig

Þau sem hafa ekki skráð sig til þátttöku hafa enn tækifæri til þess, en til þess þarf að veita upplýst samþykki. Það er hægt að gera á www.blodskimun.is með því að nota Íslykil eða rafræn skilríki. Næst þegar þátttakandi fer, einhverra hluta vegna, í blóðprufu, hvar sem er á landinu, mun Blóðskimun til bjargar fá hluta af blóðsýninu til rannsóknar. Því þarf ekki að fara í sérstaka blóðprufu til þess að taka þátt.

Um Blóðskimun til bjargar - þjóðarátak gegn mergæxlum

Blóðskimun til bjargar er umfangsmikil vísindarannsókn sem miðar að því að rannsaka áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis til þess að bæta líf þeirra sem greinast með mergæxli og leita um leið lækninga við sjúkdómnum. Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands. Rannsóknarhópur undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum, framkvæmir rannsóknina og er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands verndari þess. 

Rannsóknin hefur hlotið samtals um 600 milljónir króna í styrki frá alþjóðlegum rannsóknarsjóðum. Annars vegar alþjóðasamtökum um mergæxlisrannsóknir (Black Swan Research Initiative) og hins vegar Evrópska rannsóknarráðinu (ERC). Þá hlaut rannsóknin nýlega öndvegisstyrk Rannsóknarsjóðs.

Allar frekari upplýsingar um Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum er að finna á heimasíðu átaksins

Auglýsing Blóðskimunar til bjargar
Auglýsing Blóðskimunar til bjargar