Skip to main content
17. júní 2017

Ekkert eins áríðandi og menntunin

""

„Það var engin tilviljun að þeir sem börðust fyrir stofnun háskóla á Íslandi völdu afmælisdag Jóns Sigurðssonar forseta sem stofndag skólans. Í huga þeirra var Háskóli Íslands verðugt tákn fyrir þær hugsjónir sem þjóðhetjan barðist fyrir, um leið og þeir litu á skólann sem eina helstu forsendu þess að þjóðin gæti náð þeim pólitísku markmiðum sem Jón Sigurðsson sá í draumum sínum.“

Þetta sagði Jón Atli Benediksson, rektor Háskóla Íslands, í ræðu sem hann hélt í dag, á þjóðhátíðardegi Íslendinga í Winnipeg í Kanada. Rektor Háskóla Íslands var aðalræðumaður hátíðahalda í borginni í tilefni af þjóðhátíð Íslendinga en fjölmargir íbúar borgarinnar og svæðisins af íslensku bergi brotnir eins og kunnugt er.  Sjálfur dagurinn var helgaður Jóni Sigurðssyni forseta og minningu hans, en stytta er af honum fyrir framan þinghúsið í borginni. Ýmsir viðburðir voru haldnir í Winnipeg í dag í tilefni þjóðhátíðar.

Rektor sagði í ávarpi sínu í dag að ekkert málefni væri „eins áríðandi og afdrifamikið fyrir Íslands velferð og viðreisn“ enda væri menntun alls staðar „talin aðalstofn allra framfara, andlegra og líkamlegra.“

„Eru þau orð jafn sönn nú og þau voru þá,“ sagði rektor eftir að hann vitnaði beint í orð Jóns Sigurðssonar.

Jón Atli sagði að á tímum Jóns Sigurðssonar hefðu Íslendingar þurft að sækja til höfuðborgar konungsríkisins, Kaupmannahafnar til að öðlast menntun.

„Úr þessu vildi Jón Sigurðsson bæta, því að velferð þjóðarinnar væri undir því komin að hún eignaðist skóla sem líktust því sem gerðist í nágrannalöndunum. Segja má því að draumsýn Jóns Sigurðssonar, sem hann setti fram á Alþingi fyrir nær tveimur öldum hafi ræst, og Háskóli Íslands hefur leikið lykilhlutverk í þeim gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi á síðustu áratugum.“

Jón Atli sagði óhætt að fullyrða að fáir háskólar heims hafi haft jafn víðtæk áhrif á það samfélag sem þeir þjóna og Háskóli Íslands, því að enn sé hann eini alhliða háskólinn á Íslandi og til hans hafi yfirgnæfandi meirihluti íslenskra menntafólks sótt a.m.k. hluta sinnar háskólamenntunar.

„En um leið og skólinn er þjóðskóli, í þeim anda sem Jón Sigurðsson boðaði í frumvarpi sínu á Alþingi árið 1845, þá er hann einnig í sívaxandi mæli alþjóðlegur háskóli, í víðtæku samstarfi við sambærilegar stofnanir bæði vestan hafs og austan. Síðustu ár hefur þessi staða skólans verið staðfest í alþjóðlegum könnunum. Háskóli Íslands hefur frá aldarafmæli skólans árið 2011 raðast meðal 300 bestu háskóla heims á hinum viðurkennda matslista Times Higher Education, og á hann það ekki síst að þakka mjög öflugu rannsóknastarfi og birtingum kennara skólans í viðurkenndum erlendum vísindatímaritum. Skólinn er nú í 242. sæti listans og í 15. sæti meðal norrænna háskóla,“ sagði Jón Atli einnig í ávarpi sínu.

Hér má sjá ávarp rektors í heild sinni.

Jón Atli Benediktsson