Skip to main content
2. janúar 2017

Eiríkur og Gunnhildur sæmd fálkaorðu á nýársdag

""

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild,  og Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent við Kennaradeild, voru sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag. Þau voru í hópi tólf manna sem hlutu fálkaorðuna að þessu sinni.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, hlýtur fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskra málvísinda og forystu á sviði máltækni, en hann hefur verið óþreytandi í að vekja athygli á þeirri ógn sem stafar að íslenskunni í stafrænum heimi. Eiríkur stýrir nú ásamt Sigríði Sigurjónsdóttur, prófessor í íslensku, stóru rannsóknaverkefni sem miðar að því að varpa ljósi á stöðu og framtíð íslenskunnar á tímum stafrænna samskipta og snjalltækja.

Eiríkur lauk B.A.-prófi í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1979 og cand. mag.-prófi í íslensku og málvísindum frá sama skóla árið 1982. Hann hefur kennt við Háskóla Íslands í 35 ár, fyrst sem stundakennari frá 1981, síðan sem lektor í íslenskri málfræði frá 1986, sem dósent frá 1988 og sem prófess¬or frá 1993.  Þess má geta að seint á síðasta ári hlaut Eiríkur viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til kennslu við skólann.

Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent og deildarforseti Kennaradeildar, hlýtur fálkaorðuna fyrir framlag til stuðnings krabbameinsrannsóknum og til heilsueflingar en hún er einn af stofnendum og formaður Styrktarfélagsins Göngum saman sem fagnar tíu ára afmæli á þessu ári. Félagið styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini og hefur verið öflugur bakhjarl bæði vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands sem sinna rannsóknum á því sviði. Göngum saman stendur m.a. árlega fyrir samnefndri styrkargöngu sem haldin er víðs vegar um land, þar á meðal frá Háskóla Íslands. Frá stofnun félagsins hefur ríflega 70 milljónum verið úthlutað til íslenskra rannsakenda á sviði brjóstakrabbameins.  

Gunnhildur lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1982, M.Ed.-prófi frá Aberdeen-háskóla árið 1989 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2006. Gunnhildur var æfingakennari við Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands á árunum 1989-1998 og var ráðin lektor við Kennaraháskólann árið 1998. Hún fékk framgang í stöðu dósents árið 2007 og hefur starfað við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands frá sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands árið 2008.

Háskóli Íslands óskar þeim Eiríki og Gunnhildi innilega til hamingju með fálkaorðuna.

Eiríkur Rögnvaldsson og Gunnhildur Óskarsdóttir
Eiríkur Rögnvaldsson og Gunnhildur Óskarsdóttir