Skip to main content
3. mars 2017

Einelti kemur öllum við

""

„Vil viljum vekja athygli á fjölbreyttum aðferðum í forvörnum gegn einelti, með áherslu á bætt samskipti og jákvæða menningu. Á ráðstefnunni kemur saman breiður hópur fagfólks úr ólíkum áttum til að ræða mögulegar leiðir og lausnir í eineltismálum,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstundafræði við Menntavísindasvið, um ráðstefnuna Einelti – leiðir til lausna, sem hófst í morgun við Háskóla Íslands. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setti ráðstefnuna fyrir fullum sal.

Vanda er einn fyrirlesara á ráðstefnunni en hún hefur lengi rannsakað hvaða aðferðir skila bestum árangri í forvörnum og viðbrögðum við einelti. „Einelti gengur út á að særa, meiða, niðurlægja og hafna. Það dylst engum að afleiðingar þess geta verið mjög alvarlegar fyrir þá sem fyrir því verða. Vandinn snertir ekki síður fjölskyldur barna sem verða fyrir einelti og þá sem starfa með börnum. Einelti kemur okkur öllum við og þess vegna er svo mikilvægt að sporna við því.“

Fyrirlesarar á ráðstefnunni auk Vöndu eru Dr. Debra Pepler, Margot Peck, Dr. Sanna Herkama sem allar hafa víðtæka reynslu af forvörnum, inngripum og rannsóknum á einelti. Þær munu greina frá ýmsum hagnýtum og gagnreyndum leiðum til að koma í veg fyrir og grípa inn í eineltismál. Þátttakendum gefst kostur á að vinna í hópum þar sem skapaður verður vettvangur fyrir markvissa umræðu og stefnumörkun.

Dagskrá ráðstefnunnar

Ráðstefnan er hluti af Tómstundadeginum sem skipulagður er árlega af námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Markmið Tómstundadagsins er að taka fyrir aðkallandi málefni sem varpa ljósi á mikilvægi tómstunda og tengjast velferð og lífsgæðum fólks.

Ráðstefnan er haldin í minningu Sigurðar Jónasar Guðmundssonar (20. febrúar 1979 – 4. apríl 2016).

Vanda Sigurgeirsdóttir.