Skip to main content
27. apríl 2016

Einar S. Björnsson er heiðursvísindamaður Landspítala

""

Heiðursvísindamaður Landspítala árið 2016 er Einar S. Björnsson, yfirlæknir meltingalækninga við spítalann og prófessor við Læknadeild. Þetta var tilkynnt á árlegri uppskeruhátíð Landspítalans, Vísindi á vordögum þann 26. apríl.

Í tilkynningu frá Landspítala segir: 

Einar lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1989 og sérfræðiprófi í lyflækningum 1993 og meltingarlækningum 1995 frá Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla 1994 og var post-doc Research Fellow í Ann Arbor, Michigan við University of Michigan 1996-1997. Vann síðan á Sahlgrenska frá 1997-2008 en var við John Radcliffe Hospital Oxford í Bretlandi árið 2001. Árið 2006 var hann settur prófessor við læknadeild Gautaborgarháskóla. Var gestaprófessor við Mayo Clinic í Rochester í Minnesota 2006 og 2008-2009. Var einnig gestaprófessor í rannsóknarleyfi við NIH, í Bethesda í Maryland 2014-2015. 

Tók við yfirlæknisstöðu í meltingarlækningum á Landspítala árið 2009 og samtímis prófessorsstöðu í sömu grein við Háskóla Íslands. Einar hefur sýnt lyfjamálum áhuga lengi. Var formaður lyfjanefndar um notkun lyfja við meltingarsjúkdómum í Gautaborg frá 1999-2007. Einar var einnig formaður lyfjanefndar Landspítala 2010-2014. Einar er „executive“ ritstjóri Scandinavian Journal of Gastroenterology frá 2013.

Einar hefur verið virkur í vísindastörfum og birt meira en 200 greinar og einnig fjölda bókakafla, sjúkratilfelli og ritstjórnargreinar. Hann hefur verið leiðbeinandi 7 einstaklinga sem varið hafa doktorsritgerðir auk fjölda meistara- og læknanema í rannsóknarverkefnum. Hann hefur kynnt meira en 300 ágrip á alþjóðlegum vísindaráðstefnum og haldið fjölda boðsfyrirlestra. Einar hefur samkvæmt Google Scholar meira en 12.300 tilvitnanir (h-index 65). 

Rannsóknir Einars eru af margvíslegum toga. Doktorsritgerðin var á sviði hreyfinga í efri hluta meltingarvegar (e. Gastrointestinal motility). Eftir það beindust rannsóknir hans um skeið að starfrænum kvillum í meltingarvegi en síðan að ýmsum lifrarsjúkdómum. Mikil áhersla var og er lögð á klínískar rannsóknir á lifrarskaða af völdum lyfja en einnig á notkun og ávanabindandi eiginleika prótónupumpuhemla. 

Einar Stefán Björnsson
Einar Stefán Björnsson