Skip to main content
11. febrúar 2016

Ein stærsta ráðstefna á sviði viðskiptafræði

""

Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur fengið réttinn til þess að halda ráðstefnuna European Academy of Management (EURAM) á Íslandi árið 2018. Ráðstefnan er ein sú stærsta á sviði viðskiptafræði í Evrópu og stærsta ráðstefna sem haldin hefur verið á þessu sviði á Íslandi. Áætlað er að um 1.200-1.400 manns sæki ráðstefnuna erlendis frá.

EURAM er þekkingarsamfélag háskóla í 49 löndum sem stofnað var árið 2001 og miðar að því að efla rannsóknir og þekkingarsköpun í viðskiptafræði. Ráðstefna EURAM 2016 verður haldin í París í Frakklandi undir yfirskriftinni Manageble Cooperation.

Undirbúningsnefnd EURAM 2018 telur það mikinn feng fyrir Háskóla Íslands að ráðstefnan verði haldin á Íslandi. Hún muni efla alþjóðlegt samstarf og rannsóknir í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og vekja áhuga erlendra fræðimanna á Íslandi.

Umsóknarferlið vegna ráðstefnunnar var unnið í samvinnu Háskóla Íslands, Meet in Reykjavik, Reykjavíkurborgar og Embætti Forseta Íslands. Formaður undirbúningsnefndar EURAM 2018 er Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti og lektor við Háskóla Íslands.

Háskólasvæðið
Háskólasvæðið