Skip to main content
4. maí 2016

Efla kennslu og rannsóknir tengdar starfsendurhæfingu

Fulltrúar Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs hafa undirritað samstarfssamning um ráðningu lektors í starfsendurhæfingu í tengslum við eflingu náms á fræðasviðinu. Skólarnir tveir munu í sameiningu bjóða framhaldsnám í starfsendurhæfingu frá og með haustinu 2016. 

Samningurinn var undirritaður 2. maí síðastliðinn í húsakynnum Háskóla Íslands. Í honum kemur fram að um sé að ræða tímabundið starf lektors sem skiptist í tvær 50% stöður, eina í hvorum skóla. Með ráðningunni, sem verður til tveggja og hálfs árs, er von samningsaðila að efla megi kennslu og rannsóknir á sviði starfsendurhæfingar og styrkja þannig þróun og stefnumörkun á fræðasviðinu. Hlutverk lektoranna verður því að vinna að uppbyggingu hinnar nýju þverfræðilegu greinar starfsendurhæfingar innan skólanna tveggja og fylgja úr hlaði nýju diplómanámi í starfsendurhæfingu sem er samstarfsverkefni Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri. 

Samkvæmt samningnum er miðað við að námið gagnist starfsemi VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs þar sem lögð er áhersla á þverfræðilega starfsendurhæfingu. Gert er ráð fyrir að námið taki á helstu færniskerðingum starfsgetumissis, stuðli að heildarsýn á velferðarkerfið og hlutverk hverrar stofnunar í starfsendurhæfingarferli einstaklings, veiti þekkingu á matsferli í starfsendurhæfingu og að starfað sé út frá hugmyndafræði endurhæfingar þar sem markvisst er unnið með færniskerðingu samhliða því að styrkleikar eru kallaðir fram.

Starfsendurhæfingarsjóður mun fjármagna lektorsstöðurnar við skólana með 7,5 milljóna króna framlagi árlega í tvö og hálft ár. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem rekin er af samtökum launþega og atvinnurekenda í samstarfi við stjórnvöld og sveitarfélög ásamt lífeyrissjóðum landsins. Markmið sjóðsins er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa. 

Upplýsingar um framhaldsnám í starfsendurhæfingu má finna á heimasíðu Háskóla Íslands.

Eydís K. Sveinbjarnardóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, undirrituðu samstarfssamninginn í Háskóla Íslands mánudaginn 2. maí.
Fulltrúar VIRK - starfsendurhæfingarsjóðs, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri glaðbeitt eftir undirritun samningsins.