Skip to main content
13. maí 2016

Doktorsnám með alþjóðlega gæðavottun

""

Doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun frá evrópsku samtökunum ORPHEUS (Organisation for PhD Education in Biomedicine and Health Sciences in the European System). Endanleg viðurkenning þess efnis barst forseta Heilbrigðisvísindasviðs nú í maí byrjun. Háskóli Íslands er sjöundi háskólinn í Evrópu til að hljóta vottunina.

Gæðavottunin er ávöxtur talsverðar vinnu við endurskoðun á reglum, verkferlum og upplýsingagjöf um doktorsnám á Heilbrigðisvísindasviði. Doktorsnámsnefnd sviðsins hefur staðið fyrir þeirri vinnu í samvinnu við deildir, sviðsforseta og rannsóknastjóra. Í framhaldi af vottuninni verður reglulegt eftirlit til að tryggja að gæðum í doktorsnámi við sviðið sé haldið við með eðlilegum hætti og þau aukin þar sem þurfa þykir.

Doktorsnámsnefnd Heilbrigðisvísindasviðs skipa Bryndís E. Birgisdóttir, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild, Erla K. Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, Fanney Þórsdóttir, dósent við Sálfræðideild, Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við Læknadeild, Teitur Jónsson, dósent við Tannlæknadeild, Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, og Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild og formaður nefndarinnar. 

Í mars 2014 skilaði forseti Heilbrigðisvísindasviðs skýrslu um doktorsnám við sviðið til matsaðila ORPHEUS-samtakanna. Í september 2015 komu matsaðilarnir í úttekt og funduðu með ríflega þrjátíu einstaklingum, þ.e. fulltrúum rannsóknastofnana, leiðbeinendum, doktorsnemum, auk doktorsnámsnefndar. Í kjölfarið var Heilbrigðisvísindasviði gert að breyta tveimur atriðum í tengslum við doktorsnámið til þess að hljóta gæðavottunina. Þeirri vinnu lauk í vor og endanleg viðurkenning barst svo eins og fyrr segir nú í maí. 

Um ORPHEUS

ORPHEUS eru alþjóðleg samtök sem meta gæði doktorsnáms í líf- og heilbrigðisvísindum við evrópska háskóla. Markmið samtakanna er að standa vörð um að námið sé rannsóknartengt, sem og að auka atvinnutækifæri útskrifaðra doktora. Sex aðrir evrópskir háskólar eru með gæðamerki frá samtökunum, þar á meðal Karolínska stofnunin og Kaupmannahafnarháskóli.

Nánari upplýsingar á vefsíðu samtakanna: orpheus-med.org

Frá vinstri: Inga Þórsdóttir, sviðsforseti, Þórdís Kristmundsdóttir, formaður doktorsnámsnefndar, Helga Ögmundsdóttir, fyrrverandi formaður doktorsnámnefndar, og Ása Vala Þórisdóttir rannsóknastjóri.
Orpheus
Frá vinstri: Inga Þórsdóttir, sviðsforseti, Þórdís Kristmundsdóttir, formaður doktorsnámsnefndar, Helga Ögmundsdóttir, fyrrverandi formaður doktorsnámnefndar, og Ása Vala Þórisdóttir rannsóknastjóri.
Orpheus