Skip to main content
26. apríl 2017

Búrfellsganga í stað kræklingaferðar í Hvalfjörð

Fyrirhugaðri kræklingaferð Háskóla Íslands og Ferðfélags barnanna í Hvalfjörð laugardaginn 29. apríl hefur verið aflýst þar sem mikil þörungaeitrun hefur mælst í kræklingnum í firðinum að undanförnu. Þess í stað hefur eldfjalla- og gjótugöngu um Búrfellsgjá, sem fara átti fram 2. maí, verið flýtt til laugardagsins 29. apríl kl. 11.

Ferðafélagið hefur um áraraðir staðið fyrir afar vinsælli kræklingaferð í samstarfi við Háskóla Íslands. Farið hefur verið á vordögum og leiðin legið í Hvalfjörð þar sem alla jafna er hægt að finna mikið af góðum skelfiski á þessum árstíma. Þar hefur almenningi svo gefist kostur á að fræðast um kræklinginn, tínslu hans og nýtingu og fólk fengið að smakka á honum.

Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun vakta þörungaeitur í bláskelinni, en svo er kræklingurinn einnig nefndur, og nú bregður svo við að varað er við neyslu á skelfiski úr Hvalfirði þar sem svonefnd DSP-eiturefni eru yfir viðmiðunarmörkum.

Hvenær má tína krækling?

Almenna þumalputtareglan þegar farið er í kræklingafjöru er að óhætt sé að tína kræklinginn í þeim mánuðum sem hafa „r“ í nafninu. Þetta er vegna þess að þörungablómi og eiturefni honum fylgjandi aukast yfir sumarmánuðina þegar hitastig sjávar hækkar. Þörungaeitrið hefur hins vegar verið viðvarandi í Hvalfirðinum í vetur sem er afar óvenjulegt. Fylgjast má með mælingum Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar fyrir Hvalfjörð á vöktunarsíðu síðarnefndu stofnunarinnar

Rétt er þó að undirstrika að eiturefni hafa ekki mælst í kræklingi í Breiðafirði síðustu mánuði. Jafnframt er allur kræklingur sem ræktaður er til sölu alltaf mældur og vottaður öruggur til neyslu áður en hann fer í búðir.

Flókið samspil umhverfisþátta

Það sem gerist við þessar aðstæður er að skelfiskurinn nærist á eitruðum svifþörungum og eitrið safnast fyrir í skelfisknum án þess að hafa áhrif á hann sjálfan. Eituráhrifanna gætir aftur á móti hjá mönnum og öðrum spendýrum sem neyta eitraðs skelfisks. DSP er skammstöfun fyrir Diarrhetic Shellfish Poisoning og áhrif DPS-eitrunar eru ógleði, uppköst, þrautir í kviðarholi og niðurgangur sem fólk finnur fyrir skömmu eftir að menn hafa neytt eitraðs skelfisks. Bati næst yfirleitt innan þriggja sólarhringa.

Aðspurður um ástæður eitrunarinnar í Hvalfirði nú segir Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum og einn þeirra sem leitt hafa gönguferðir HÍ og FÍ í Hvalfjörð undanfarin ár, erfitt að segja til um það. „Þetta er ekki endilega tengt hitastigi sjávar þótt hitinn hafi eflaust einhver áhrif, beint eða óbeint. Ástand næringarefna í sjónum, lífræn og ólífræn mengun ásamt lagskiptingu sjávar eru þættir sem hafa einnig verið nefndir sem mögulegar ástæður þess að þörungarnir ná sér á strik og mynda eitrið. Þetta virðist því vera flókið samspil mismunandi umhverfisþátta og ekki bætir úr skák að um allnokkrar mismunandi þörungategundir er að ræða,“ segir hann.

Gengið um Búrfellsgjá í staðinn

Þar sem kræklingaferðinni var aflýst ákváðu Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna að færa fyrirhugaða eldfjalla- og gjótukönnunargöngu um Búrfellsgjá, sem auglýst hafði verið 2. maí, yfir á laugardaginn 29. apríl. Mæting er kl. 11 á bílastæðið við Vífilsstaði í Garðabæ en þaðan verður svo ekið áfram í halarófu að upphafsstað göngunnar.

Gangan um Búrfellsgjá verður undir forystu Snæbjörns Guðmundssonar, jarðfræðings frá Háskóla Íslands, en hann mun skýra fyrir göngugestum þau náttúrufyrirbrigði sem á vegi verða. Búrfellsgjáin er stórkostlegur ævintýraheimur fyrir alla krakka með ótal hellum, sprungum, gjótum og gjám.

Snæbjörn býr að mikilli reynslu í miðlun jarðfræðinnar enda hefur hann verið kennari í Háskóla unga fólksins og Háskólalestinni um árabil en auk þess hefur hann skrifað bókina „Vegvísar um jarðfræði Íslands“ þar sem fjallað er á aðgengilegan hátt um jarðfræði og jarðsögu 100 áningarstaða í öllum landshlutum.

Gangan um Búrfellsgjá er ókeypis og öllum opin. 

Hún er liður í samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, þar sem reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman á áhugaverðan hátt. 

Snæbjörn Guðmundsson og krakkar