Skip to main content

BRCA-krabbameinslyf gætu nýst stærri hópi sjúklinga

13. Mar 2017

Ný lyf sem hingað til hafa fyrst og fremst verið hugsuð fyrir meðferð við krabbameini hjá arfberum stökkbreyttra BRCA-gena gætu nýst allt að fimmtungi brjóstakrabbameinssjúklinga. Þetta sýnir ný rannsókn alþjóðlegs hóps vísindamanna en fjallað er um hana í grein sem birtist vísindaritinu Nature Medicine í dag. Meðal aðstandenda rannsóknarinnar er Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor emerita við Læknadeild Háskóla Íslands.

Rannsóknin, sem fjallað er um í Nature Medicine, er framhald á viðamikilli rannsókn á brjóstakrabbameini sem birt var í tímaritinu Nature í maí á síðasta ári. Greinin sem nú birtist í Nature Medicine beinist sérstaklega að göllum tengdum BRCA1- og BRCA2-genum, sem m.a. hafa fundist í rannsóknum hér á landi. Genin ákvarða prótein sem gegna m.a. mikilvægu hlutverki við viðgerð á erfðaefninu DNA. Stökkbreytingar í þessum genum, BRCA1 og BRCA2, valda því að viðgerð á svokölluðum tvíþátta DNA-brotum skerðist og þær tengjast þannig aukinni áhættu á brjóstakrabbameini og fleiri tegundum krabbameina, svo sem eggjastokka-, blöðruhálskirtils- og briskrabbameinum.

Arfgengar stökkbreytingar í þessum genum eru aftur á móti sjaldgæfar og skýra því aðeins lítinn hluta brjóstakrabbameina í heiminum. Í rannsókninni sem birt er í Nature Medicine var brjóstakrabbameinserfðamengi 560 sjúklinga þaulrannsakað m.t.t. stökkbreytinga, óstöðugleika og genatjáningar. Niðurstöðurnar eru túlkaðar með nýju forriti, HRDetect, sem greinir ákveðin stökkbreytingamynstur og óstöðugleika/endurröðunarmynstur (rearrangement signatures) í æxlisvef. Rannsóknin leiddi í ljós sams konar mynstur í æxlisvef mun fleiri einstaklinga en þeirra sem voru með arfgenga stökkbreytingu í BRCA1- eða BRCA2-genum. Þetta þýðir að mun stærri hópur, eða allt að 20% brjóstakrabbameinssjúklinga, hefur einkenni sem líkjast þeim sem sjást í BRCA-arfberum. Þeir gætu því mögulega nýtt sams konar sértæk meðferðarúrræði.

Svokallaðir PARP-hindrar eru lyf sem hafa verið hönnuð til að meðhöndla brjósta-, eggjastokka- og blöðruháskirtilsæxli í arfberum BRCA1- og BRCA2-stökkbreytinga. Verið er að gera fjölda lyfjaprófana (clinical trials) með PARP-hindra víða um heim.

„Niðurstöður rannsóknarinnar benda þannig til að sértæk meðferð með PARP-hindrum (eða öðrum lyfjum sem beinast að göllum í viðgerð á tvíþátta DNA brotum) gæti gagnast 1 af hverjum 5 brjóstakrabbameinssjúklingum. Þetta eru merkilegar og jafnframt óvæntar niðurstöður sem þarfnast nú víðtækra lyfjaprófana á vel skilgreindum hópum sjúklinga,“ segir Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor emerita við Læknadeild Háskóla Íslands og einn aðstandenda rannsóknarinnar. 

Rannsóknin er fjölþjóðleg og hefur þróast út frá alþjóðlegu samstarfsverkefni um erfðamengi krabbameina (International Cancer Genome Consortium –  ICGC) sem miðar að því að raðgreina og skilgreina öll helstu krabbamein í mönnum. Verkefnið sem nú er kynnt í Nature Medicine byggist á miklu samstarfi, þróun aðferða og í nýrri nálgun í úrvinnslu stórra gagnasafna.

Að rannsókninni kemur stór hópur vísindamanna, m.a. frá nokkrum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og Ástralíu en stjórnandi þessa flókna verkefnis er dr. Serena Nik-Zainal frá Welcome Trust Sanger Institute í Cambridge í Bretlandi. Jórunn hefur um árabil átt í góðu samstarfi við Welcome Trust Sanger Institute, bæði Mike Stratton, yfirmann stofnunarinnar, og Serenu Nik-Zainal, en þess má geta að Serena flutti erindi á málþingi til heiðurs Jórunni í Háskóla Íslands í maí á síðasta ári þegar fyrri greinin um verkefnið birtist í Nature.  

Jórunn Erla Eyfjörð og Serena Nik-Zainal