Skip to main content
27. júní 2017

Brautskráning tæknifræðinema Háskóla Íslands og Keilis

""

Föstudaginn 23. júní fór fram brautskráning kandídata í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis, en námið heyrir undir Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Þetta er í sjötta skipti sem útskrifaðir eru nemendur í tæknifræði frá Keili til B.Sc.-gráðu frá Háskóla Íslands.

Alls brautskráðust níu nemendur úr mekatróník hátæknifræði og orku- og umhverfistæknifræði. Brautskráningin fór fram við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú og hafa nú í allt 72 nemendur útskrifast úr náminu frá upphafi. Sverrir Guðmundsson deildarstjóri tæknifræðideildar flutti ávarp og afhenti prófskírteini ásamt Helga Þorbergssyni, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Arnlaugur Guðmundsson, fulltrúi tæknifræðinga í stjórn Verkfræðingafélags Íslands, flutti ávarp og veitti gjafir fyrir vel unnin og áhugaverð verkefni.

Ólafur Jóhannsson hlaut viðurkenningu fyrir lokaverkefni sitt í orku- og umhverfisfræði sem var hagkvæmnismat á uppsetningu umhverfisvænna orkugjafa fyrir rekstur gistihúsa. Þá fékk Þórir Sævar Kristinsson viðurkenningu fyrir lokaverkefni sitt í mektaróník hátæknifræði. Í verkefninu var hönnuð og unnin hagkvæm lausn að jaðartæki við Flutningsvaka sem er sjálfvirkur búnaður sem skrásetur hvers konar meðhöndlun sem varningur í flutningi verður fyrir ásamt því að skrá hitastig, þrýsting og rakastig. Þórir hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan námsárangur, með 9,01 í meðaleinkunn.

Ólöf Ögn Ólafsdóttir flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ræðu og stjórnaði athöfninni. Gjafir veittu Tæknifræðingafélag Íslands og HS-Orka.

Tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis hefst næst í ágúst en um er að ræða hagnýtt nám sem hentar sérstaklega vel fyrir frumkvöðla og þá sem hafa áhuga á verklegri nálgun í námi og starfi. 

""