Skip to main content
15. ágúst 2017

Bókin „Um lög og rétt“ komin út

Bókin Um lög og rétt. Helstu greinar íslenskrar lögfræði 3. útgáfa er komin út undir ritstjórn Bjargar Thorarensen, prófessors við Lagadeild Háskóla Íslands. Í bókinni er gefið yfirlit helstu grunngreinar íslenskrar lögfræði sem eru stjórnskipunarréttur, stjórnsýsluréttur, réttarfar, samninga- og kröfuréttur, skaðabótaréttur, refsiréttur, eignaréttur og fjölskyldu- og erfðaréttur. Höfundar efnis eru Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson, Eyvindur G. Gunnarsson, Hafsteinn Dan Kristjánsson, Hrefna Friðriksdóttir, Páll Sigurðsson, Róbert R. Spanó og Viðar Már Matthíasson.  Allir höfundarnir eru núverandi eða fyrrverandi fastir kennarar við Lagadeild Háskóla Íslands.

Bókin, sem kom fyrst út árið 2006, hefur verið uppseld um nokkurt skeið. Hún hefur nú verið endurskoðuð og uppfærð með tilliti til lagaþróunar síðustu ára og nýrrar dómaframkvæmdar. Markmið hennar er einkum að gefa laganemum í grunnnámi og öðrum sem vilja kynnast helstu grundvallarreglum íslensks réttar kost á að fræðast um það efni á einum stað. Hver kafli er helgaður einu sviði lögfræðinnar þar sem farið yfir helstu fræðilegu undirstöður hvers sviðs. Jafnframt er varpað ljósi á framkvæmd dómstólanna á réttareglum um efnið og helstu stefnumarkandi dóma. Bókin nýtist vel til leggja grunn að frekara námi í lögfræði á háskólastigi, og hefur m.a. verið nýtt til kennslu á fyrsta ári laganáms við Háskóla Íslands. Þá er hún handhægt uppflettirit fyrir starfandi lögfræðinga um helstu réttarsvið lögfræðinnar. Einnig hefur hún upplýsingagildi fyrir almenning og umræðu í þjóðfélaginu um íslenskt réttarkerfi og helstu réttarreglur.

Útgefandi er bókaútgáfan Codex. Útsölustaðir verða bóksala Úlfljóts, Lögbergi; Bóksala stúdenta, Háskólatorgi og valdar verslanir Pennans/Eymundssonar.