Skip to main content

Ávarp Jóns Atla Benediktssonar við vígslu Veraldar

20. apr 2017

Ávarp Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við hátíðarsamkomu í tilefni af vígslu Veraldar – húss Vigdísar, Háskólabíói 20. apríl 2017 kl. 15

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands og heiðursgestur þessarar samkomu, Vigdís Finnbogadóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra Færeyja, Rigmor Dam, góðir gestir. 

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin til þessarar hátíðar sem haldin er í tilefni af því að í dag verður vígt og tekið í notkun nýtt og glæsilegt hús Háskóla Íslands sem hlotið hefur heitið Veröld – hús Vigdísar, um leið og hleypt verður af stokkunum Vigdísarstofnun, alþjóðlegri miðstöð tungumála og menningar við Háskóla Íslands. 

Hugmyndin að stofnun alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar við Háskóla Íslands kviknaði fyrst fyrir rúmum áratug innan stjórnar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum sem stofnuð var árið 2001 á Evrópsku tungumálaári og 90 ára afmæli Háskóla Íslands. Stofnunin hefur ætíð notið liðveislu Vigdísar og sá stuðningur hefur skipt sköpum fyrir stofnunina sem ber nafn hennar. V igdís hefur m.a. gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) frá árinu 1998 auk þess sem hún hefur stutt tungumálakennslu í verki á  margvíslegan hátt.

Árið 2008 var stigið stórt skref í þá átt að móta hugmyndina að alþjóðlegri tungumálamiðstöð við Háskóla Íslands og afla henni fylgis. Þá var settur á stofn alþjóðlegur ráðgjafarhópur sem verið hefur stjórn stofnunar Vigdísar til ráðuneytis. Í ársbyrjun 2011 var málið komið á þann rekspöl að mennta- og menningarmálaráðherra lagði inn formlega umsókn um að tungumálamiðstöðin hlyti vottun sem stofnun innan UNESCO. Í nóvember sama ár samþykkti allsherjarráðstefna UNESCO síðan að Vigdísarstofnun yrði starfrækt undir merkjum UNESCO.  Um mitt ár 2013 undirrituðu þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra og Irina Bokova aðalframkvæmdastjóri UNESCO samstarfssamning á milli íslenskra stjórnvalda og UNESCO.

Meginhlutverk Vigdísarstofnunar er að stuðla að varðveislu tungumála og stuðningi við tungumál í útrýmingarhættu með rannsóknum, ráðstefnuhaldi og útgáfustarfsemi. Stofnuninni er ætlað að styðja rannsóknir á málstefnu og málpólitík í því augnamiði að efla læsi og menntun.  Þá er stofnuninni ætlað að vera alþjóðlegur rannsókna- og umræðuvettvangur um tungumál og menningu fyrir leiðandi fræðimenn á þessu sviði.  Loks mun stofnunin koma upp tungumálasafni og miðla fróðleik um tungumál með bestu safnfræðilegu aðferðum. 

Góðir gestir, vígsla Veraldar – húss Vigdísar er mikið fagnaðarefni. Með því eignast hugvísindin við Háskóla Íslands aðsetur í hjarta háskólasvæðisins sem verður vettvangur kennslu, rannsókna og nýsköpunar á sviði erlendra tungumála og menningar. Í húsinu er allt til alls, frábær aðstaða fyrir starfsfólk, stúdenta og innlenda og erlenda gesti, fullkominn fyrirlestrasalur með aðstöðu fyrir túlka, fjölbreytt kennslurými, nútímalegt bóka- og gagnasafn, rými fyrir málþing og ráðstefnur, veitingastofa og opið torg undir berum himni.  Loks er í húsinu flott sýningaraðstaða sem í dag verður vígð með sýningu um líf og störf Vigdísar sem ber heitið „Samtal – Dialog“.  Síðast en ekki síst eru í húsinu glæsileg listaverk eftir íslenska og erlenda listamenn sem Auður Ava Ólafsdóttir, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands, mun gera nánari grein fyrir hér á eftir.

Arkitektar hússins hafa unnið frábært verk.  Veröld er margslungið sjálfstætt byggingarlistaverk en tengir um leið saman þau hús sem fyrir eru á háskólalóðinni og gefur þeim nýtt hlutverk. Áþreifanlegasti vitnisburðurinn um þetta eru göng undir Suðurgötu sem tekin verða í notkun um leið og húsið og munu tengja saman Háskólatorg og Veröld og þar með austur- og vesturhluta háskólasvæðisins.  Ásamt Háskólatorgi og Gimli mun Veröld í reynd breyta háskólasvæðinu úr samansafni stakstæðra bygginga í eiginlegt háskólaþorp, campus.  Þá er það til marks um hugvitssemi og sögulega vitund hönnuðanna að Veröld, nýjasta hús Háskóla Íslands, beinir jafnframt kastljósinu að því elsta, Loftskeytastöðinni, lítilli perlu frá tímabili íslenskrar steinsteypuklassíkur, sem fagnar 100 ára afmæli á næsta ári.

Óhætt er að segja að framkvæmdir við húsið hafi gengið bæði hratt og vel.  Fyrsta skóflustunga var tekin 8. mars 2015, á alþjóðadegi kvenna, hornsteinn lagður á kvenréttindadaginn 19. júní 2016 og verklok urðu nú um miðjan mars. Og vígslan fer fram í dag, á sumardaginn fyrsta árið 2017. Það hefur sannarlega vel tekist til því Veröld ber nafn með rentu og er heill heimur út af fyrir sig.

Við efumst ekki um að þetta fagra hús muni þjóna vel þeim tilgangi sínum að gera okkur veröldina aðgengilegri líkt og kjörorð þessarar hátíðardagskrár kveður á um. Tungumál ljúka upp heimum. Það eru orð að sönnu.  Öll eigum við okkur móðurmál sem er í senn leiðin að okkur sjálfum, öðrum manneskjum og heiminum öllum.  Tungumálið varðveitir arfleifð genginna kynslóða en gefur okkur um leið von um að við sem nú erum uppi fáum tengst ókomnum kynslóðum.  Tungumálið er háttur okkar á að vera í heiminum.  Með því hugtökum við í senn heiminn og stöðu sjálfra okkar í honum. En móðurmál heimsins eru ótalmörg og því má með sanni segja að við öðlumst ekki skilning á sjálfum okkur og heiminum nema við hugum markvisst að fjölbreytileika tungumálanna. 

Ef að líkum lætur mun vægi tungumála aukast á komandi árum.  Fyrir ekki svo löngu síðan var talið að álfurnar væru að renna saman í eitt risastórt heimsþorp.  Nú eru á hinn bóginn blikur á lofti og við stöndum frammi fyrir einhverjum mestu fólksflutningum mannkynssögunnar með tilheyrandi árekstrum menningarheima, trúarskoðana og viðhorfa.  Því er fyrirsjáanlegt að skilningur á tungumálum, með öllum þeim menningarkimum sem í þeim felast, muni á næstu áratugum skipta meira máli fyrir velferð mannkyns en nokkru sinni fyrr.

Kæra Vigdís. Við þig vil ég segja þetta: Það er sæmdarauki fyrir Háskóla Íslands og íslensku þjóðina að mega tileinka þér, fyrsta þjóðkjörna kvenforseta heims, þetta glæsilega hús.  Þú hefur alla tíð sýnt Háskóla Íslands einstakan stuðning og velvilja um leið og þú hefur verið óþreytandi í baráttu þinni fyrir málstað tungumálanna.  Þú nýtur virðingar meðal íslensku þjóðarinnar, og um heim allan, og hefur þú verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá tveimur deildum Háskóla Íslands, Verkfræðideild og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Megi þetta glæsilega hús ætíð rísa undir nafni.

Góðir gestir.  Á eftir munð þið vígja Veröld – hús Vigdísar. Húsið verður í senn opnað og vígt með því að þið gangið inn í bygginguna.  Starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, verður þar með hafin.

Ég vil ljúka þessum orðum á því að þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg til að gera Veröld – hús Vigdísar að veruleika en of langt mál yrði að nefna alla hér.  Ég vek athygli á bæklingi sem þið fenguð í hendur þegar þið genguð í salinn en þar er gerð rækileg grein fyrir sögu málsins og öllum sem að því komu. Ég get þó ekki lokið máli mínu án þess að nefna sérstaklega prófessor Auði Hauksdóttur, forstöðumann og formann stjórnar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.  Hún hefur verið vakin og sofin yfir verkefninu árum saman.  Færi ég henni bestur þakkir fyrir frábær störf í þágu Háskóla Íslands.  Þrautsegja hennar og útsjónarsemi er aðdáunarverð. 

Ég vil nú bjóða velkomna á sviðið fjóra leikara sem munu leiða okkur í gegnum dagskrána hér á eftir með því að flytja texta úr bókinni „Tungumál ljúka upp heimum“ sem gefin var út í tilefni stórafmælis Vigdísar Finnbogadóttur fyrir 7 árum. 

Takk fyrir. Til hamingju. Gleðilegt sumar. Njótið dagsins!