Skip to main content
15. september 2015

Áskoranir sjálfbærnimarkmiða og takmarkaðar auðlindir

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, birti grein í breska dagblaðinu Guardian nýverið ásamt erlendu samstarfsfólki sínu þar sem tíundað er hverju þjóðir heims þurfi að breyta á heimavelli til þess að uppfylla sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þá eru hún og Harald Sverdrup, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild skólans, höfundar ítarlegrar greinar sem birtist nýverið í vísindaritinu Geochemical Perspectives þar sem farið er yfir það hversu lengi auðlindir jarðar komi til með að endast.

Að greininni í Guardian standa ásamt Kristínu Völu erlendir vísindamenn sem hafa rannsakað og látið sig varða sjálfbærni í heiminum um langa hríð. Í greininni, sem ber yfirskriftina „Say goodbye to capitalism: welcome to the Republic of Wellbeing“, er teiknuð upp mynd af ímynduðu ríki, Velferðarlýðveldinu (e. Republic of Wellbeing), sem hafi skuldbundið sig sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem rædd verða og samþykkt í alþjóðasamfélaginu síðar í þessum mánuði. 

Til þess að ná þeim markmiðum þurfi lýðveldið m.a. að horfa á efnahagsmál til langs tíma í stað skamms, festa sjálfbærni í stjórnarskrá eins og sum ríki hafi þegar gert, nálgast málefni og ákvarðanir í samfélaginu með heildrænum hætti og horfa til fleiri þátta en hagvaxtar, landsframleiðslu og hlutabréfaverðs við mat á velferð í ríkinu. Aðgerðir í átt til sjálfbærni þurfi því ekki aðeins að eiga sér stað á vettvangi stjórnmálanna heldur einnig hjá fyrirtækjum og almenningi öllum. Með hinum nýju sjáfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þurfi ríki heimsins m.a. að draga úr vistsporum og ójafnrétti í heiminum, fella niður skuldir fátækra ríkja ásamt því að ýta undir þróun og útbreiðslu nýrrar tækni sem stuðlar að umhverfisvænni lifnaðarháttum.

Grein Kristínar Völu og samstarfsfélaga í Guardian í heild sinni

Í grein Kristínar Völu og Haralds í Geochemical Perspectives skoða þau hversu miklar auðlindir eru eftir á jörðinni, bæði orkuauðlindir og málmar ýmiss konar. Með sérstökum líkönum - þar á meðal kvikum kerfislíkönum - draga þau saman heildarmagn auðlinda og álykta út frá því hversu lengi þær muni endast. Komast þau m.a. að þeirri niðurstöðu að mjög muni draga úr aðgengi að mörgum auðlindanna, sem eru afar mikilvægar í nútímasamfélagi, á næstu áratugum. Það sé eitt af stærstu verkefnum mannsins að tryggja nægar auðlindir fyrir vaxandi fjölda fólks í heiminum. Enn fremur leggja þau fram tillögur að árangursríkri stjórnun og endurvinnslu auðlinda sem nauðsynleg er til að tryggja kynslóðum framtíðarinnar sjálfbæran heim.

Grein Kristínar Völu og Haralds í heild sinni.

Kristín Vala Ragnarsdóttir
Kristín Vala Ragnarsdóttir