Skip to main content
14. desember 2015

Ásgeir Brynjar verðlaunaður fyrir doktorsritgerð sína

Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, fékk á dögunum verðlaun Företagsekonomiska Institutet í Svíþjóð fyrir bestu doktorsritgerð á sviði viðskipta- og rekstrarhagfræði. Verðlaununum deilir hann með Sven-Olof Junker sem lauk doktorsverkefni frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi.

Ásgeir Brynjar lauk doktorprófi frá Gautaborgarháskóla árið 2014 og var yfirskrift doktorsverkefnisins „Cash flow accounting in banks“. Í verkefninu rannsakaði hann sjóðstreymi í stærstu bönkum á Norðurlöndunum yfir fimmtán ára tímabil, skoðaði þróun alþjóðlegra reikningsskilareglna um sjóðstreymi og gerði viðamikla viðtalsrannsókn meðal stjórnenda í norrænu bönkunum. Verkefnið var unnið í Svíþjóð, Osló og Kaupmannahöfn á árunum 2010-2014. 

Sjóðstreymisyfirlit er einn af grunnþáttum ársreikninga fyrirtækja, sem sýnir breytingu á handbæru fé eða sjóðseign félags á ákveðnu rekstrartímabili, til dæmis frá upphafi til loka ársins, hvaðan peningarnir koma og í hvað þeir eru notaðir. Rannsókn Ásgeirs Brynjars leiddi m.a. í ljós að handbært fé frá rekstri flestra skandinavísku bankanna var neikvætt í mörg ár fyrir fjármálakreppuna en hefur verið mjög jákvætt eftir hana. Upphaflega voru deilur í stjórn stofnananna sem setja reikningsskilastaðla um það hvort að um banka ættu að gilda sérstakar reglur en naum meirihlutaákvörðun varð á þann veg að sömu reglur skyldu gilda um sjóðstreymi banka og annarra fyrirtækja.

Í umsögn valnefndar vegna verðlaunanna kemur fram að viðtöl í ritgerðinni við starfsmenn í sjö norrænum bönkum sýni – nokkuð óvænt – að bankarnir leggi ekki sérlega mikla áherslu að sýna nákvæmt yfirlit eða fjalla um sjóðstreymi sitt. Ritgerðin byggist á kenningum frá ólíkum greinum hag- og viðskiptafræðinnar og framsetningin sé skýr, jafnvel þegar dregin séu fram rök úr gjörólíkum áttum. „Í lok ritgerðarinnar eru kynntar nýjar leiðir til að þróa reglur um reikningshald banka sem geta veitt öflugri viðspyrnu í fjármálakerfinu á erfiðum tímum.“ 

Företagsekonomiska Institutet er yfir hundrað ára gömul menntastofnun með höfuðstöðvar í Stokkhólmi sem býður upp á ýmiss konar námsleiðir fyrir starfsfólk í viðskiptalífinu. Verðlaun stofnunarinnar fyrir bestu doktorsritgerðina á sviði viðskipta- og rekstrarhagfræði eru kennd við Oskar Sillén, sem var fyrsti prófessorinn við Viðskiptaháskólann í Stokkhólmi snemma á síðustu öld og einn af sex fyrstu löggiltu endurskoðendum landsins ásamt því að vera afar virkur í sænsku efnahagslífi.

Doktorsritgerð Ásgeirs Brynjars

Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, er hér til vinstri en með honum á myndinni er Sven-Olof Junker sem deildi verðlaununum með honum.
Ásgeir Brynjar Torfason
Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, er hér til vinstri en með honum á myndinni er Sven-Olof Junker sem deildi verðlaununum með honum.
Ásgeir Brynjar Torfason