Skip to main content
27. september 2016

Ánægja eykst meðal erlendra nemenda við HÍ

Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu í fjórða sinn frá samtökunum StudyPortals fyrir árið 2016. Samtökin mæla m.a. ánægju erlendra nema með námsdvöl við erlenda háskóla. Háskóli Íslands hlaut einkunnina 9,5+ en hæsta einkunnin sem er gefin er 10. Í fyrra hlaut HÍ einkunnina 9+ þannig að ánægja með skólann hefur aukist.

Erlendir nemar eru ánægðastir með háskóla í Noregi, Írlandi og Póllandi. Skandinavískir skólar hafa skorað hátt í ánægjukönnuninni undanfarin ár ásamt Írlandi en athygli vekur að Pólland sé meðal efstu landanna í ár.

Noregur hlaut hæstu einkunn í könnuninni en samkvæmt niðurstöðum eru nemendur ánægðastir með gæði menntunar og fjölbreytt úrval námskeiða í norskum háskólum. Kennarar séu hjálpsamir, opnir og faglegir, stúdentasamfélagið gott og náttúrufegurðin einstök.

Nemendur sem stunduðu nám á Írlandi voru ánægðastir með fjölbreytt samfélag erlendra nemenda, vel skipulagða háskóla sem kunnu að taka á móti erlendum nemum og lögðu góðan grunn að framtíð þeirra. Nemendur tiltóku einnig hversu vinsamlegir og gestrisnir Írar voru.

Pólland er í fyrsta sinn meðal efstu landa í könnuninni. Nemendur voru ánægðir með líflegt og gott nemendaumhverfi, skemmtilegar borgir, vingjarnlegt fólk og ódýrt húsnæði.

Erlendir nemendur sem stunduðu nám við Háskóla Íslands voru ánægðastir með gæði kennslu, góða námsaðstöðu, skemmtilega borg og stórbrotna náttúru. Þeir nefndu hátt verðlag og erfiðleika við að finna húsnæði sem neikvæða þætti.

Ummæli frá erlendum nemenda um námsdvölina við HÍ: 
„It is a very welcoming institution with many exchange students from all around the world! The teaching quality is high and facilities are very good.“

Nemendur virðast í heildina vera ánægðari með námsdvöl erlendis og fleiri lönd fá yfir 9 í einkunn í ár en undanfarin ár.

Könnunin á ánægju stúdenta er í formi spurningalista um reynslu af námsdvöl við viðkomandi skóla. Nemendur gefa einkunn á bilinu 0-10 og útlista síðan ástæður fyrir einkunninni. Þeir háskólar sem skora hæst í ánægjumælingunni hljóta viðurkenningu StudyPortals-samtakanna (StudyPortals Award for International Student Satisfaction).

Könnunin, sem fram fer árlega, veitir mikilvægar upplýsingar um reynslu skiptinema, hvað þeir séu ánægðir með og hvað ekki og nýta má niðurstöðurnar í að gera umbætur. Þá auðvelda niðurstöðurnar nemendum, sem hyggja á nám erlendis, að velja skóla

Niðurstöður ánægjukannaninnar voru kynntar á EAIE ráðstefnunni í Liverpool fyrr í mánuðinum.

""
""