Skip to main content
24. október 2016

Alþjóðlegt samstarfsverkefni um forgangsröðun í hjúkrun

""

Helga Bragadóttir, dósent og forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrunarstjórnun, og Ingibjörg Hjaltadóttir, dósent og sérfræðingur í öldrunarhjúkrun, báðar við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala, eru hluti af hópi alþjóðlegra vísindamanna frá 28 löndum sem hlotið hafa fjármögnun frá Evrópusambandinu til verkefnis sem snýr að því að skoða forgangsröðun í hjúkrun. Verkefninu var hleypt af stokkunum í Brussel þann 20. september sl. 

Verkefnið nefnist „Forgangsröðun verkefna og hjúkrun sem er sleppt: Alþjóðlegt og fjölþætt vandamál“ (e. RATIONING – MISSED CARE: An international and multidimensional problem). Rannsóknir benda til þess að forgangsröðun í hjúkrun sé viðtekinn vandi og hafi neikvæðar afleiðingar fyrir sjúklinga, hjúkrunarfræðinga og stofnanir. Markmið verkefnisins er að auðvelda umræðu um forgangsröðun í hjúkrun með því að efla samstarf og skoðanaskipti ólíkra aðila, svo sem úr hjúkrun, heilbrigðisþjónustu almennt, siðfræði og félagsvísindum.

Þátttakendur í verkefninu eru frá 28 löndum Evrópu og víðar og tengjast fræðasviðum eins og hjúkrunarfræði, sálfræði, heimspeki, siðfræði, heilbrigðishagfræði og heilbrigðisstjórnun. Helga Bragadóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir eru aðalfulltrúar Íslands í verkefninu en varamenn þeirra eru Elfa Þöll Grétarsdóttir, aðjunkt við Hjúkrunarfræðideild og sérfræðingur í öldrunarhjúkrun við Landspítala, og Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og dósent við Viðskiptafræðideild og Háskólann á Bifröst. 

Verkefnið hefur hlotið fjármögnun úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins undir flokknum COST (e. European Cooperation in Science and Technology). Tilgangur COST-verkefna er að byggja upp alþjóðleg samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum. 

Verkefnið hófst nú í september og er það til fjögurra ára. 

Aðstandendur verkefnisins sem komu saman til upphafsfundar í Brussel fyrir um mánuði.
Leiðtogar verkefnisins, þær Evridiki Papastavrou, dósent við Hjúkrunarfræðideild Tækniháskóla Kýpurm, og Helena Leino-Kilpi prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann Turku í Finnlandi.
Aðstandendur verkefnisins sem komu saman til upphafsfundar í Brussel fyrir um mánuði.
Leiðtogar verkefnisins, þær Evridiki Papastavrou, dósent við Hjúkrunarfræðideild Tækniháskóla Kýpurm, og Helena Leino-Kilpi prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann Turku í Finnlandi.