Skip to main content
29. mars 2017

Alþjóðleg ráðstefna um femíníska heimspeki

""

Fjölmenn alþjóðleg ráðstefna um femíníska heimspeki verður haldin við Háskóla Íslands og í Skálholti dagana 30. mars til 2. apríl. Hluti af ráðstefnunni er opið málþing sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 30. mars kl. 10:00-17:00. Þar munu öflugir heimspekingar ræða hugmyndir um framtíð, samtíma og söguna.

Það eru Heimspekistofnun Háskóla Íslands, rannsóknarteymið Feminist Philosophy Transforming Philosophy og NSU Study Circle Feminist Philosophy: Time, History and the Transformation of Thought við Norræna sumarháskólann sem standa fyrir ráðstefnunni. Skipuleggjendur hennar, þær Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor og formaður stjórnar stofnunarinnar, og Eyja Margrét Brynjarsdóttir, fræðimaður hjá stofnuninni, segja að femínísk heimspeki sé að bylta vinnubrögðum í heimspeki og grunnhugmyndum hennar um þessar mundir. Femínískar útópíur nýtist til að hressa upp á heimspekina og sýna fram á að meginspurningar hennar fæðist af undrun yfir heiminum og frústrasjónum yfir ósanngjörnum aðstæðum. Útópíurnar þurfi ekki að vera „óraunsæjar“, heldur varpa ljósi á þörf fyrir aukin sjálfsskilning sem og hvernig við getum skapað saman betri heim.

Sigríður segir að femínísk heimspeki hafi lagt fram öfluga gagnrýni á heimspekihefðina og afhjúpað hvernig kvenheimspekingar hafi verið strokaðir út og hve hugmyndir „stórra“ heimspekinga hafi viðhaldið kynjamismun með því að gera lítið úr „kvenlegum“ eiginleikum. Í kjölfar þessarar gagnrýni hafi femínísk heimspeki lagt til mannskilning sem virði fjölbreytileika okkar, sjái okkur sem samfélagsverur, leggi áherslu á að við þurfum á hvert öðru að halda og leyfi okkur ölllum að vera „mannleg“.

Fyrirlesarar á málþinginu í Hátíðasal Háskóla Íslands 30. Mars kl. 10:00-17:00:

  • Alison Jaggar (University of Colorado, Boulder): Feminist Utopias: Transforming the Methodology of Political Philosophy
  • Nancy Bauer (Tufts University): Philosophical Ideology and Real-World Power
  • Kristie Dotson (Michigan State University): On the Value of Challenging Philosophical Orthodoxy: A Tale of Two Careers
  • Willow Verkerk (Kingston University): Reinterpreting Philosophy: Questioning Universality with Exemplarity and Difference
  • Sigríður Þorgeirsdóttir og Eyja M. Brynjarsdóttir (Háskóli Íslands): Inngangs- og lokaávarp

Nánari upplýsingar á vef Heimspekistofnunar.

Sigríður Þorgeirsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir.