Skip to main content
15. apríl 2016

Áhrif stafrænnar tækni á íslensku rannsökuð

""

Rannsóknasjóður RANNÍS hefur veitt 117 milljóna króna styrk til rannsóknar á málfræðilegum áhrifum stafrænna miðla og tækninýjunga. Það eru prófessorarnir Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson sem stýra rannsókninni.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar samfélags- og tæknibreytingar með tilkomu stafrænna miðla og snjalltækja. Enskt máláreiti er meira og nær til yngri barna og fleiri sviða en nokkru sinni fyrr. Enskunotkun málnotenda er einnig mun gagnvirkari en áður þar sem enskan er núna orðin virkt samskiptatæki við fólk og tölvur. Í verkefninu verður íslenska notuð sem dæmi um tungumál sem er undir auknu álagi vegna aukinnar notkunar ensku í tækniheiminum. Sérstaklega verður hugað að því hvort aukið enskuáreiti í samfélaginu hafi jafn mikil áhrif á leikskólabörn og börn í fyrstu bekkjum grunnskóla, sem eru enn á aðalmáltökuskeiði, og á eldri börn, unglinga og fullorðna.

Ítarlegum málfarslegum upplýsingum verður safnað frá 400 Íslendingum sem valdir verða með lagskiptu handahófsúrtaki. Málnotkun hvers einstaklings verður greind og metin og tilteknir þættir málkunnáttunnar kannaðir með viðtölum og prófum. Auk ítargagna verður lögð fyrir viðamikil netkönnun sem nær til 5000 þátttakenda og er ætlað að veita yfirlit yfir notkun íslensku og ensku í íslensku málsamfélagi.

Með því að skoða ensk áhrif á íslensku verður reynt að varpa ljósi á hugtakið „stafrænn tungumáladauði“ sem hefur verið notað talsvert í umræðu um stöðu og lífvænleika tungumála upp á síðkastið. Með stafrænum dauða er átt við að tungumál verði undir á netinu og í stafrænum samskiptum en ýmislegt er enn óljóst í sambandi við merkingu og notkun hugtaksins, svo sem það hvort stafrænn dauði leiðir óhjákvæmilega til algers dauða, eða hvort tungumál getur lifað góðu lífi í raunheiminum þótt það deyi í netheimi.

Rannsóknin felur í sér mikilvægt framlag á sviði fræðikenninga um máltöku og málbreytingar, líf og dauða tungumála, breytileika og þróun í máli einstaklinga og mun einnig varpa ljósi á stöðu og framtíð íslenskunnar.

Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir
Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir