Skip to main content
7. apríl 2016

Afhjúpuðu kappakstursbílinn TS16 á Háskólatorgi

""

Verkfræðinemarnir í Team Spark afhjúpuðu kappakstursbílinn TS16 í dag, fimmtudaginn 7. apríl, á Háskólatorgi. Liðið hyggst fara með hann í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppnina Formula Student á hinni frægu Silverstone-braut í Bretlandi í sumar og jafnframt tekur það í fyrsta sinn þátt í sams konar keppni á Ítalíu.

Team Spark er kappaksturslið Háskóla Íslands sem hannar og smíðar rafknúinn kappakstursbíl, en þátttakendur í liðinu fá hluta af vinnunni metna í námi sínu í verkfræði. Lið frá háskólanum hefur tekið þátt í Formula Student á Silverstone frá árinu 2011 en um er að ræða stærstu alþjóðlegu keppni verkfræðinema í heimi þar sem yfir hundrað lið frá háskólum víða um heim etja kappi bæði innan og utan brautar. 

Keppt er í tveimur flokkum í Formula Student á Silverstone-brautinni. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru hönnun og áætlanir kynntar en ekki er keppt í kappakstri. Team Spark hyggst keppa í flokki 1 líkt og tvö undanfarin ár. 

Hönnun TS16 byggist á hönnun TS15, kappakstursbílsins sem liðið fór með á Silverstone-brautina í Englandi í fyrra, en þá var það hársbreidd frá því að tryggja sér rétt til að taka þátt í aksturshluta keppninnar. Liðsmenn í ár setja stefnuna ótrauðir á aksturshlutann og hafa þegar reynsluekið TS16 með það fyrir augum að gera bílinn sem bestan úr garði fyrir förina til Englands. Frá Englandi heldur Team Spark svo til Varano de' Melegari nærri Parma á Ítalíu þar sem liðið hyggst taka þátt í Formula SAE Italy í fyrsta sinn, en keppnin fer fram helgina 22.-25. júlí.

Á fimmta tug verkfræðinema við Háskóla Íslands hefur unnið hörðum höndum að hönnun TS16 frá því í fyrrahaust en áherslan er eins og undanfarin ár á rafknúinn og umhverfisvænan bíl.

Sigríður Borghildur Jónsdóttir, liðstjóri Team Spark, segir að eftirvæntingin sé mikil fyrir komandi sumri. „Það er svo gaman að sjá svona mikla og erfiða vinnu ganga upp og bæði liðsmenn og bakhjarlar liðsins eiga mikið hrós skilið en verkefnið er eingöngu fjármagnað með hjálp styrktaraðila,“ segir Sigríður. 

Aðspurð um nýjungar í bílnum segir Sigríður að liðið hafi í fyrsta sinn þróað vængi eða „spoilera“ á bílinn. „Það hefur gengið vonum framar og í raun ótrúlegt að ná þessum árangri í fyrstu tilraun.“

Sigríður segir að markmið verkefnisins sé ekki eingöngu að smíða kappakstursbíl. Liðsmenn fái dýrmæta reynslu og tækifæri til verklegra æfinga sem muni nýtast þeim alla ævi. „Nemendur fá því tækifæri til að koma þeirri fræðilegu þekkingu sem þeir öðlast í háskólanáminu yfir í eitthvað verklegt,“ segir Sigríður.

Að lokinni afhjúpuninni í dag sögðu félagar í Team Spark stuttlega frá hönnun bílsins og sýndu gestum myndband frá reynsluakstri hans. Við athöfnina fluttu þau Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Örn Ingvi Jónsson, framleiðslustjóri Össurar og fulltrúi bakhjarla Team Spark, og Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, einnig stutt ávörp. 

Verkfræðinemarnir í Team Spark
Verkfræðinemarnir í Team Spark