Skip to main content
1. október 2015

Aðkoma félagsráðgjafa að móttöku flóttafólks

Þúsundir flóttafólks streyma til Evrópu um þessar mundir og hefur fjöldi þess á heimsvísu aldrei verið jafnmikill og nú.

Ríkisstjórn Íslands hefur sett á fót ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda. Enn sem komið er liggur ekki fyrir hversu stórum hópi flóttafólks verði boðið til Íslands en líklegt er að hann verði stærri en hér hefur áður þekkst.

Um þrjátíu sveitarfélög hafa boðist til að taka á móti flóttafólki og er mikilvægt að byrja strax að huga að undirbúningi móttökuverkefnanna. Undirbúa þarf starfsfólk sveitarfélaga í formi fræðslu og þjálfunar sem og heilbrigðisstarfsfólk og sjálfboðaliða.

Félagsráðgjafar munu leggja sitt af mörkum til að aðstoða sveitarfélög og aðra við móttöku flóttafólks um land allt. Þeir hafa leikið lykilhlutverk í vinnu með flóttafólki um áratugaskeið og hefur fagdeild fjölmenningarfélagsráðgjafa markvisst byggt upp reynslu og þekkingu í vinnu með flóttafólki. 

Dr. Guðbjörg Ottósdóttir, félagsráðgjafi og aðjúnkt við Félagsráðgjafardeild, hefur sérhæft sig í málefnum flóttafólks og hælisleitenda. Hún var meðal mælenda á málþingi Félagsráðgjafafélags Íslands á dögunum þar sem hún ræddi aðkomu félagsráðgjafa að málaflokknum og vinnu þeirra með flóttafólki. Guðbjörg var enn fremur á meðal viðmælenda Spegilsins á Rás 1 þann 23. september síðastliðinn þar sem koma flóttafólks til Íslands var til umfjöllunar. Upptöku má hlýða á hér frá fimmtándu mínútu.

Yfirlýsingu frá Félagsráðgjafafélagi Íslands um móttöku flóttafólks til Íslands má finna hér.

Guðbjörg Ottósdóttir aðjúnkt í félagsráðgjöf