Skip to main content
18. júní 2015

Á þriðja hundrað þreyttu inntökupróf í Læknadeild

Alls þreyttu 270 nemendur inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands fyrir komandi haustmisseri dagana 11. og 12. júní síðastliðinn. Þetta er þrettánda sinn sem slíkt fyrirkomulag er viðhaft við inntöku nýrra nemenda í deildina.

Í heild þreyttu 221 inntökupróf í læknisfræði en 49 í sjúkraþjálfun. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best geta skráð sig í læknisfræði eða sjúkraþjálfun, allt eftir skráningu viðkomandi í prófið. Teknir eru inn 35 nemendur í sjúkraþjálfun og 48 í læknisfræði en fjöldinn miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna varðandi verklega þjálfun stúdenta.

Líkt og fyrri ár var prófað í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð. Skráningu í prófið lauk 20. maí síðastliðinn og höfðu skráðir þátttakendur frest til 2. júní til að greiða próftökugjald en það nemur 20 þúsund krónum. 304 nemendur skráðu sig í inntökuprófið sem er svipaður fjöldi og á undanförnum árum.

Inntökuprófið er tvískipt. Annar meginhluti prófsins (70%) byggist á námsefni framhaldsskóla og þar eru eingöngu krossaspurningar. Í hinum meginhlutanum (30%) eru spurningar sem kanna almenna þekkingu, nálgun og úrlausn vandamála svo og spurningar um siðfræðileg álitamál. Í þessum hluta er bæði um krossapróf og stuttar ritgerðir að ræða.

Þess má geta að þeir sem fara í prófið en komast ekki inn í Læknadeild geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 1. ágúst. 

Nánari upplýsingar um inntökuprófið.