Skip to main content
22. mars 2017

Á lista Guardian yfir áhugaverðustu víkingabækurnar

""

Nýútkomið fræðirit Jóns Karls Helgasonar, Echoes of Valhalla: The Afterlife of the Eddas and Saga, er á lista breska dagblaðsins Guardian yfir tíu áhugaverðustu bækurnar sem fjalla um norræna víkinga (Top 10 books about the Vikings). Meðal annarra höfunda sem rata á listann eru Jane Smiley, Neil Gaiman, Frans G Bengtsson og Peter Madsen.

Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bók Jóns Karls um framhaldslíf íslenskra miðaldabókmennta á síðari öldum og er sjónum einkum beint að teiknimyndasögum, kvikmyndum, ferðabókum, leikritum og tónlist. Meðal þeirra sem við sögu koma eru leikskáldin Henrik Ibsen og Gordon Bottomley, ferðabókahöfundarnir Frederick Metcalfe og Poul Vad, tónskáldin Richard Wagner og Edward Elgar, rokkararnir Jimmy Page og Robert Plant, kvikmyndaleikstjórarnir Roy William Neill og Richard Fleischer, og teiknararnir Jack Kirby og Peter Madsen. Þá er einn kafli bókarinnar helgaður Snorra Sturlusyni en þar er lögð áhersla á að í verkum á borð við Heimskringlu og Snorra-Eddu megi greina áþekka úrvinnslu eldri texta og áðurnefndir höfundar og listamenn ástunda í sínum verkum.

Jón Karl Helgason er prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Útgefandi Echoes of Valhalla er breska forlagið Reaktion Books en bókinni er dreift í Bandaríkjunum í gegnum University of Chicago Press.

Hér má nálgast upplýsingar um bókina á vef University of Chicago Press.

Hér má nálgast viðtal Dagsavisen við Jón Karl Helgason.

Kápa bókarinnar og Jón Karl Helgason