Skip to main content
27. nóvember 2015

Á leið á Loftslagsráðstefnu SÞ í París

Nítján manna hópur meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands heldur utan í vikunni til þess að taka þátt í Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21) í París þar sem þjóðir heims hyggjast reyna að koma sér saman um aðgerðir til að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga. Einn nemendanna vinnur að lokaverkefni tengdu ráðstefnunni, en þar eru skopteikningar fjölmiðla um efni ráðstefnunnar í forgrunni.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram dagana 30. nóvember–11. desember í París og markmiðið með henni er að samþykkja nýjan alþjóðlegan samning, sem gildir fyrir allar þjóðir heims, um að halda hnattrænni hlýnun undir 2°C. Fundurinn er sagður einn sá mikilvægasti sem haldinn hefur verið um loftslagsmál enda hefur verið bent á að ef ekkert verði að gert til að sporna við hlýnandi loftslagi muni það hafa miklar afleiðingar síðar á öldinni, m.a. fyrir jökla heims, vatnsbúskap og byggðir manna við sjó.

Ferð meistaranemanna í umhverfis- og auðlindafræði er liður í sérstöku námskeiði sem var í boði í haust. Þar er m.a. tekinn fyrir rammasamningur Sameinuðu þjóðanna vegna loftslagsbreytinga (UNFCCC), sem var undirritaður á umhverfisráðstefnu SÞ í Ríó árið 1992, og sú vinna sem unnin hefur verið í aðdraganda samningaviðræðnanna í París.

Flestir nemendanna munu sitja fyrri viku ráðstefnunnar en örfá sitja alla ráðstefnuna. „Við munum fylgjast með samningum hinna 195 aðildarríkja sem senda fulltrúa á ráðstefnuna. Við munum hlusta á fyrirlestra og taka þátt í vinnustofum á opna svæði ráðstefnunnar en einungis tvö í hópnum fá aðgang að hinu svokallaða bláa svæði, sem er miðstöð ráðstefnunnar, þar sem sjálfar samningaviðræðurnar eiga sér stað. Þau tvö verða því okkar útsendarar á ráðstefnunni og munu segja hópnum frá því sem fram fer í innsta hring. Við munum svo ræða framgang ráðstefnunnar á daglegum fundum innan hópsins,“ segir Þorgerður Anna Björnsdóttir, formaður GAIA, félags meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði, og ein þeirra sem sækir ráðstefnuna.

Viljayfirlýsingar um samdrátt gróðurhúsalofttegunda duga ekki

Aðspurð um væntingar um samkomulag á ráðstefnunni segir Þorgerður erfitt að svara því. „Margt hefur breyst til hins betra frá því að Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn átti sér stað 2009, en hún þótti ekki skila miklum árangri og sumar þjóðir sendu fulltrúa sína aðeins til þátttöku á ráðstefnunni seinustu dagana sem endurspeglaði ákveðið áhugaleysi þeirra á málefninu. Nú hafa bæði Bandaríkin og Kína, sem eru í lykilhlutverkum í baráttunni fyrir bættum loftslagsmálum, lýst yfir vilja sínum til samstarfs á þessu sviði. Markmiðin kunna að þykja máttlaus en eru þó framfaraskref þar sem yfirlýsingunum fylgja vonandi stefnubreytingar til bóta,“ segir hún.

Þorgerður bendir þó á að eitt stærsta vandamálið í loftslagsmálum sé fólgið í því að

viljayfirlýsingar ríkja um að draga úr losun gróðurhúsagastegunda dugi ekki til ef miðað er við útreikninga vísindasamfélagsins þar sem markmiðið er að forðast 2°C hlýnun á andrúmsloftinu. „Það þarf fleira að koma til, e.t.v. ákveðna vitundarvakningu almennings um mikilvægi loftslagsmála og alvarleika þess ef ekkert er að hafst. Þær viljayfirlýsingar sem gefnar hafa verið út enn sem komið er leiða samt til 3-3,5°C hækkunar á hitastigi sem er langt fyrir ofan markmiðið,“ segir hún og bætir við að spennandi verði að sjá hvort takist að komast að bindandi samkomulagi á ráðstefnunni í París og hvaða hugmyndir muni spretta upp í umræðunni sem nær enn lengra en sjálfar samningaviðræðurnar. Þarna verði gríðarlegur fjöldi fólks samankominn sem vilji berjast fyrir framförum á sviði loftslagsmála. 

Skopteikningar endurspegla mun á væntingum og raunveruleika

Sá mismunur sem er á væntingunum í viljayfirlýsingunni sjálfri og þeim raunveruleika sem vísindin boða kemur við sögu í lokaverkefni Yaroslövu Kutsay í umhverfis- og auðlindafræði en hún fer einnig á ráðstefnuna. „Rannsóknarspurning verkefnisins er: Að hverjum snýr háðið í skopteikningum sem birtar verða í fjölmiðlum í tengslum við loftslagsráðstefnuna,“ segir Yaroslava.

Hún bendir á að markmið ráðstefnunnar sé metnaðarfullt. „Allar þjóðir heims eiga að komast að almennu og bindandi samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Óháð því hver niðurstaðan verður á fundinum þá eru miklar líkur á að hún verði ekki í samræmi við ráðleggingar vísindamanna,“ segir Yaroslava og bendir á að fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hafi viðurkennt að samkomulagið tryggi ekki að hnattræn hlýnun haldist undir 2°C. „Þessi þröskuldur er engu að síður aðalmarkmið fundarins en það gefur þeim sem fylgjast með honum færi á að sjá mismuninn á því sem „ætti að vera gert“ og „er gert“. Þar með skapast grundvöllur fyrir háð eða kaldhæðni enda snýst hún fyrst og fremst um falskar væntingar,“ segir Yaroslava og vísar til teikninganna. 

Háðið sem bóluefni gegn hroka mannsins

Áhersla Yaroslövu verður á að skoða skopteikningar í fjölmiðlum í þeim tíu löndum og svæðum þar sem útblástur gróðurhúsalofttegunda er mestur, þ.e. Kína, Bandaríkjunum, Evrópusambandsríkjunum, Indlandi, Rússlandi, Indónesíu, Brasilíu, Japan, Kanada og Mexíkó. „Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á það hver fjölmiðlarnir, í gegnum háð, telja ábyrgan fyrir auknum áhrifum loftslagsbreytinga og kanna hvort greina megi eitthvert mynstur í teikningunum, nokkurs konar sameiginlegan „óvin“,“ segir hún.

Yaroslava bætir við að háðið hjálpi manninum í þeirri stöðu sem hann er, að reyna að glíma við náttúruöflin og það stóra verkefni sem loftslagsbreytingarnar séu. „Þegar fylgst er með samningaviðræðum um loftslagsmál fer umræðan á einhverjum tímapunkti að líkjast einni af þversögnum Zenos þar sem Akkiles reynir af öllum mætti að ná skjaldbökunni en kemst aðeins að þeirri niðurstöðu að það sé sama hversu hratt sem hann hlaupi, það séu alltaf fyrir hendi þættir sem hann ráði ekki við. Engu að síður virðast hlutirnir vera að hreyfast í rétta átt í loftslagsmálum eins og Divestment-hreyfingin, sem berst gegn notkun jarðefnaeldsneytis, og ummæli páfa um loftslagsbreytingar og innreið hugtaksins „vistfræðileg synd“ eru til vitnis um. Hið illa, sem fyrir ekki svo löngu var óhlutbundið og dularfullt, tekur á sig raunverulega og mælanlega mynd. Kaldhæðni, sem undirstrikar takmörkun á þekkingu okkar og virkar sem bóluefni gegn hroka, er ein af leiðunum til þess að takast á við það,“ segir Yaroslava.

Spennandi og lærdómsríkir dagar fram undan

Ljóst má vera að nemendur munu koma reynslunni ríkari heim af ráðstefnunn. „Fyrir nemendur í umhverfis- og auðlindafræði er þetta ómetanlegt tækifæri til þess að verða vitni að ráðstefnu af þessari stærðargráðu um málefni sem eru algjörlega í kjarna námsgreinarinnar. Við nemendurnir vonumst öll til þess að geta haft jákvæð áhrif á umhverfismál á hinum ýmsu samfélagsstigum og það verður því áhugavert að sjá hvernig fulltrúar vísindasamfélagsins og stjórnmálaheimsins setjast saman við samningaborðið til þess að marka stefnu í þessu gríðarlega mikilvæga málefni sem loftslagsmálin eru. Þetta verða því án efa mjög spennandi og lærdómsríkir dagar í París!“ segir Þorgerður að lokum.

Hægt er að fylgjast með framgangi ráðstefnunnar á vef hennar.

Mengun