Skip to main content
4. júlí 2016

Á fjórða tug styrkja til doktorsrannsókna

""

Rannsóknir á kvikmyndalist Baltasars Kormáks, áhrifum loftslagsbreytinga á jöklaferðamennsku á Íslandi, mansali í Senegal, áhrifum ómega-3 fitusýra á hjöðnun bólgu, aðlögun ungmenna af erlendum uppruna að íslensku samfélagi og hönnun efnahvata fyrir sjálfbæra eldsneytisframleiðslu eru meðal þeirra doktorsverkefna við Háskóla Íslands sem hlutu styrk úr doktorssjóðum skólans nú í vor. Doktorsnemar og vísindamenn við öll fimm fræðasvið skólans hljóta styrki að þessu sinni.

Alls fengu 32 doktorsnemar og leiðbeinendur þeirra styrk úr þremur sjóðum innan Háskóla Íslands en umsóknir reyndust nærri 150 að þessu sinni. Rannsóknasjóður Háskóla Íslands veitti 25 styrki, Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands sex styrki og einn styrkur var veittur í nafni ISAVIA en fyrirtækið lagði fyrir fjórum árum 25 milljónir króna í sjóð til þess að styðja við rannsóknir meistara- og doktorsnema við Háskóla Íslands tengdar flugi og flugtengdri starfsemi.

Styrkirnir 32 tengjast afar fjölbreyttum fræðasviðum, þar á meðal mannfræði, lögfræði, hagfræði, sameindalíffræði, lyfjafræði, sálfræði, læknisfræði, næringarfræði, bókmenntafræði, kvikmyndafræði, sagnfræði, uppeldis- og menntunarfræði, fjölmenningu, jarðeðlisfræði, jöklafræði, líffræði, efnafræði, eðlisfræði, ferðamálafræði og umhverfis- og byggingarverkfræði.

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands hefur verið öflugur bakhjarl doktorsnáms við Háskóla Íslands síðustu ár og reyndar skólans alls allt frá stofnun sjóðsins á sjöunda áratug síðustu aldar. Stofnfé sjóðsins var hlutabréfaeign Vestur-Íslendinga í Eimskipafélaginu en þeir vildu með gjöfinni stuðla að velgengni Háskóla Íslands og styrkja efnilega stúdenta til náms við skólann og um leið minnast þátttöku Vestur-Íslendinga í stofnun Eimskipafélagsins. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum í núverandi mynd fór fram fyrir tíu árum og frá þeim tíma hafa rúmlega hundrað doktorsnemar notið styrks úr sjóðnum.

Rannsóknasjóður Háskóla Íslands hefur verið starfræktur í nærri 35 ár en hefur í tæpan áratug úthlutað styrkjum til doktorsnema og leiðbeinenda þeirra með það fyrir augum að efla doktorsnám við Háskóla Íslands. Óhætt er að segja að það hafi tekist því fjöldi brautskráðra doktora frá skólanum hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum. Alls hafa á þriðja hundrað doktorsnemar fengið úthlutað úr Rannsóknasjóðnum frá upphafi.

Nánari upplýsingar um doktorsverkefnin sem fengu styrk að þessu sinni er að finna á heimasíðu styrktarsjóða Háskóla Íslands

""
""