Skip to main content
13. júní 2017

130 milljónir til rannsóknar á kæfisvefni

Alþjóðlegur samstarfshópur undir stjórn Þórarins Gíslasonar, prófessors við Læknadeild og yfirlæknis á lungnadeild Landspítala, hefur hlotið 130 milljóna króna styrk frá Bandarísku heilbrigðisstofnunni (National Institute of Health) til rannsóknar á kæfisvefni. Styrkurinn er til fimm ára.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig blóðþrýstingssvörun sjúklinga breytist samhliða meðferð með svefnöndunartæki og leitað verður erfða- og lífeðlisfræðilegra skýringa á mismunandi blóðþrýstingssvörun einstaklinga með kæfisvefn. Einnig verður þáttur einstaklingsbundins breytileika í gerð og starfsemi öndunarvegar kannaður með segulómskoðun og lífeðlisfræðilegum mælingum í svefni.

Heildarupphæð styrksins nemur rúmum 1,1 milljarði króna (11,5 milljónir dollara) en þar af er hlutur Íslands um 130 milljónir króna. Bandaríska heilbrigðisstofnunin (National Institute of Health) hefur í tvígang áður styrkt verkefni samstarfshópsins. Fyrsti styrkurinn var til rannsókna á erfðum og eðli kæfisvefns en sá síðari til þess að meta samspil hjarta- og æðasjúkdóma í kæfisvefni. Hlutur Íslands í þessum tveimur verkefnum var um 250 milljónir króna.

Frá árinu 2001 hefur verið formlegt samstarf um svefnrannsóknir milli Háskóla Íslands, Landspítala og University of Pennsylvania (PENN) í Bandaríkjunum. Samstarfið er undir stjórn Þórarins Gíslasonar, prófessors við Læknadeild og yfirlæknis á lungnadeild Landspítala, og Alan I. Pack, prófessors við University of Pennsylvania og gestaprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands.

Efnt var til málþings þann 9. júní sl. til að fara yfir stöðu svefnrannsókna á Íslandi og kynna fyrirhuguð verkefni samstarfshópsins. Aðalerindið hélt Alan I. Pack og fjallaði það um nýja nálgun í læknisfræði við greiningu og meðferð. Fundarstjóri var Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdarstjóri lyflækningasviðs Landspítala. Málþingið fór fram á Landspítala.

Ræða rektors á málþinginu

Þórarinn Gíslason
Hluti samstarfshópsins. Frá vinstri: Hlíf Steingrímsdóttir, Þórarinn Gíslason, Erna Sif Arnardóttir, Erla Björnsdóttir og Allan I. Pack.
Alan Pack
Þórarinn Gíslason