Háskóli Íslands

Fræðslustarf í fangelsum

Inga Guðrún Kristjánsdóttir

Inga Guðrún Kristjánsdóttir, meistaranemi í Uppeldis- og menntunarfræðideild

Nám er besta betrunin“ er titill meistararitgerðar Ingu Guðrúnar Kristjánsdóttur í uppeldis- og menntunarfræði. Ritgerðin byggist á langtímarannsókn um fræðslustarf í fangelsum þar sem Inga fylgist með átta föngum á Litla-Hrauni sem stunda þar nám. Eftir því sem hún kemst næst er þetta fyrsta eigindlega langtímarannsóknin á þessu sviði.

Fangar hafa lögbundinn rétt til náms og á Litla-Hrauni er rekið útibú frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. 

Inga segist alls ekki smeyk við að fylgja föngum eftir. „Ég hef alls staðar mætt mikilli velvild og fengið góðar móttökur, sama hvort það eru fangarnir, starfsmenn skólans, stjórnendur fangelsanna eða aðrir,“ segir hún. Inga tekur viðtöl við fangana, fylgist með námsárangri þeirra og líðan í námi.

„Margir fanganna standa sig gríðarlega vel og dæmi eru um framúrskarandi árangur í háskólanámi. Svo gengur öðrum ekki eins vel, en það er ekki síður mikilvægt að fá að kynnast reynslu þeirra,“ segir Inga.

„Ég legg áherslu á að spyrja þá út í fyrri skólareynslu. Þeir eiga flestallir sameiginlegt að sú reynsla er frekar brotin og hafa ekki allir lokið hefðbundnu grunnskólanámi,“ segir Inga.

Inga hefur mikla trú á forvarnargildi menntunar og telur menntunina geta bætt möguleika fanganna gríðarlega að lokinni afplánun. Hún bendir einnig á að rannsóknir hafi sýnt að nám í afplánun hefur marktæk áhrif á tíðni síbrota og að þeir lendi síður aftur í fangelsi en ef þeir fengju ekki menntun.
Fangarnir sem taka þátt í rannsókn Ingu eru almennt afar ánægðir með að fá tækifæri til menntunar og eru sannfærðir um að hún eigi eftir að styrkja þá því, eins og þeir segja sjálfir, „nám er besta betrunin“.

Leiðbeinandi: Guðný Guðbjörnsdóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði.

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is