Skip to main content

Um nám í þjóðfræði

Í náminu er sjónum beint að alþýðumenningu fyrri tíðar og hversdagsmenningu okkar daga.

Þjóðfræðin er kynnt sem fræðigrein á íslenska og alþjóðlega vísu, nemendur tileinka sér sjónarhorn þjóðfræðinnar á samfélagið og læra að beita aðferðum hennar til sjálfstæðra rannsókna. Ennfremur fá þeir trausta undirstöðu í sögu fagsins og kynnast helstu hugmyndastraumum á nýrri öld.

Þjóðfræðinemar kynnast munnmælum, orðlist og alþýðutónlist fyrr og nú, allt frá norrænum goðsögum til flökkusagna samtímans, frá Eddukvæðum til ljóskubrandara og frá gömlum þjóðlögum til dægurlaga síðustu ára.

Þjóðsögur, sagnir og þjóðtrú skipa sérstakan sess í náminu, en leitast er við að skoða íslenskt efni í alþjóðlegu samhengi. Fjallað er um siði og venjur í sambandi við ævihátíðir (fæðingar, afmæli, fermingar, giftingar, jarðarfarir) og önnur hátíðahöld, um veislur, leiki, dægradvöl og dans hvort heldur sem er í gamla íslenska bændasamfélaginu eða í borgarsamfélagi nútímans. Þjóðfræðaefni ýmissa samfélagshópa er skoðað sérstaklega í náminu og m.a. fjallar sérstakt námskeið um þjóðfræði barna og unglinga.

Efnismenning er tekin til gagngerrar skoðunar og athygli beint að því hvernig við upplifum líkama okkar og kyngervi, hvernig við innréttum heimilið, klæðum okkur og höfum okkur til, matreiðum og borðum og svo að hlutunum sem við röðum í kringum okkur. Efnismenningin veitir ríka innsýn í samfélagið á hverjum tíma, hvernig menn takast á við lífið, tjáningu fólks og fegurðarskyn. Breytingar á efnismenningu eru jafnframt einhver mikilvægasti vitnisburður sem völ er á um samfélagsbreytingar og vitna um sögu alþýðumanna og kvenna sem ekki hafa skilið eftir sig ritaðar heimildir.

Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir í náminu og fengist við hjátrú og þjóðtrú í tengslum við kirkjuna og aðrar stofnanir samfélagsins. Fjallað er ítarlega um norræna trú, goðsögur og helgisiði á samanburðargrundvelli, en auk þess er hugað að hefðbundinni heimsmynd í eldri samfélögum, að göldrum, örlagatrú og hugmyndum um yfirnáttúruleg fyrirbæri.

Loks ber að geta að sérstakt námskeið er kennt um safnafræði, grundvallaratriði safnastarfs og hlutverk safna og sýninga í samfélaginu. Annað námskeið fjallar um menningararf, tekur púlsinn á þessu hreyfiafli í nútímasamfélagi og spyr hvernig menningararfur tengi saman nútíð og fortíð. Þá er farið ofan í saumana á þjóðernishugmyndum og þjóðarímyndum í íslenskum kvikmyndum og í menningarpólitík okkar daga, jafnframt því sem fjölmenningarsamfélagið er skoðað frá sjónarhorni þjóðfræðinnar.

Útvarpsþættirnir Þjóðbrók

Í námskeiðinu Inngangur að þjóðfræði hafa nemendur unnið útvarpsþætti sem byggjast á einhverjum af viðfangsefnum þjóðfræðinnar. Þættirnir hafa verið á dagskrá RÚV undanfarin ár og má nálgast þá á hlaðvarpsformi (podcast).

""
Tengdar síður
Kynningarmyndband deildarinnar
Kynningarefni
Kynningarbæklingur um þjóðfræði