Háskóli Íslands

Nám í félagsráðgjöf

 

Sigrún JúlíusdóttirDr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus í félagsráðgjöf

Félagsráðgjöf - nauðsyn í nútímasamfélagi

Félagsráðgjöf er og hefur verið nútímafag. Hún þróaðist sem sérfræðigrein í tengslum við umrót iðnbyltingarinnar og aldamótanna 1900. Öll þau umbrot með breyttum lífsstíl, borgarvæðingu og nýju gildismati kröfðust nýrrar aðlögunar einstaklinga, fjölskyldna og samfélagsheilda.

Þróun trygginga og bætt félags- og heilbrigðislöggjöf í þágu almennings, barna, fjölskyldna og þeirra hópa sem eiga undir högg að sækja eru málefni félagsráðgjafar. Stór hluti félagsráðgjafa vinnur við persónulega ráðgjöf og meðferðarstörf. Í þessum störfum vinna félagsráðgjafar út frá heildarsýn og velferð fjölskyldunnar. Viðfangsefnin eru oft samskipta- og uppeldisvandi, hjónabandserfiðleikar, ofbeldi, skilnaður, forsjármál, veikindi og slys eða annars konar áföll og missir.

Félagsráðgjöf er í eðli sínu alþjóðleg og hún er í sífelldri endurnýjun. Hún hvílir á traustum siðfræðigrunni með virðingu fyrir manngildi hvers einstaklings og rétti hans til að njóta sín í einkalífi og sem samfélagsþegn. Öflugt alþjóðasamstarf greinarinnar og háskóla sem mennta félagsráðgjafa beinist að því að styrkja félagsráðgjafa til ábyrgðarstarfa í fjölbreytilegu samfélagi.

Á síðustu áratugum hefur starfs- og fræðigreinin eflst og látið til sín taka á breiðum vettvangi um leið og sérhæfing hefur farið vaxandi. Fimm ára háskólanám til löggildra starfsréttinda veitir traustan almennan undirbúning fyrir ábyrgðarstörf í málefnum sem snerta velferð fólks á ólíkum lífsskeiðum við síbreytilegar aðstæður. Félagsráðgjafar geta hlotið sérhæfingu á sviði félags- og heilbrigðismála og í skóla- og réttarkerfi. Öll þessi svið snerta beint og óbeint velferð barna í fjölskyldunni og í samfélaginu.

 

 

Steinunn Hrafnsdóttir
Dr. Steinunn Hrafnsdóttir, deildarforseti
 
Viðtal Háskólavefs við Steinunni Hrafnsdóttur frá afmælisárinu 2011
 
Í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands og 30 ára kennsluafmæli félagsráðgjafar á Íslandi sögðu starfandi félagsráðgjafar frá sinni upplifun og þeim veruleika sem blasti við þeim þegar þau útskrifuðust sem félagsráðgjafar. Dr. Steinunn Hrafnsdóttir, varadeildarforseti Félagsráðgjafardeildar, svaraði spurningum vefs Háskóla Íslands.
 
Framhaldsnám, rannsóknir og starfsþjálfun
„Á síðustu þrjátíu árum hefur margt áunnist í námi í félagsráðgjöf. Þó má nefna nokkrar vörður sem hafa skipt meginmáli fyrir greinina. Það er í fyrsta lagi breytingin frá því að vera fjögurra ára starfsréttindanám yfir í að verða fimm ára meistaranám í félagsráðgjöf.  Auk þess sú áhersla sem við höfum lagt á ýmis konar framhaldsnámi svo sem í fjölskyldumeðferð, barnavernd og öldrunarmálum,“ segir Steinunn aðspurð um þróun námsins hérlendis.
 
„Einnig má nefna aukna áherslu á rannsóknir og sérstaklega rannsóknir sem tengjast vettvangi félagsráðgjafar. Þar hefur Rannsóknastofnun í barna- og fjölskyldvernd skipt verulegu máli fyrir þróunina ásamt góðum og virkum tengslum kennara deildarinnar við vettvang. Að lokum má nefna þá áherslu sem við höfum lagt á starfsþjálfun og góð tengsl við félagsráðgjafa á vettvangi,“ segir hún.
 
Aukin eftirspurn eftir efnahagshrun
Steinunn tekur fram að félagsráðgjöf hafi blómstrað á þessum þrjátíu árum og að í dag séu um 500 nemendur við deildina [...] „Atvinnumöguleikar félagsráðgjafa eru mjög góðir og nemendur okkar hafa ekki átt í vandræðum með að fá störf eftir að námi lýkur. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur orðið enn meiri eftirspurn eftir félagsráðgjöfum til að takast á við ýmsan þann vanda sem hrunið hefur haft áhrif á í okkar samfélagi,“ segir Steinunn og bætir við að ákveðið hafi verið að velja þessa fyrirlestra og efni útfrá þeim aðstæðum sem blasa við í þjóðfélaginu í dag.
 
„Okkur fannst við hæfi að fá ólíkar kynslóðir af félagsráðgjöfum til að fjalla um þann veruleika sem við þeim blasti eftir að þeir útskrifuðust.  Þannig er mögulegt að skoða sögu greinarinnar út frá þeirri sýn sem speglast í störfum og námi þessara einstaklinga á ólíkum tímum.“
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is